144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

lögregla og drónar.

449. mál
[17:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir að taka upp málefni dróna í þinginu. Hann beinir fyrst og fremst sjónum sínum að eign lögreglunnar á drónum og nú hefur hæstv. ráðherra upplýst okkur um að slík eign sé ekki til staðar og ekki fyrirhuguð. Ég vildi í þessu sambandi hvetja til þess og ætla sjálf líka að taka þátt í því að við ræðum einnig um dróna í því sambandi að mannréttindasamtök víða um heim hafa beitt sér gegn notkun dróna í hernaði þar sem mannlaus för eru nýtt til þess að drepa almenna borgara. Ég vil líka vekja athygli á því að eitt skiptið þegar hér var verið að mótmæla fyrir utan, þegar draga átti til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu, þá var dróni fyrir ofan Austurvöll og það er til á mynd.

Þótt við búum í samfélagi þar sem við þurfum að vera meðvituð um að við erum í raun og veru undir stöðugu eftirliti er náttúrlega mikilvægt að vitað sé,(Forseti hringir.) með ómönnuð loftför sem og mönnuð, hverjir séu þar á ferð og hver sé tilgangur ferðarinnar.