144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

eftirlit með starfsháttum lögreglu.

450. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra svarið, sem var í meginatriðum skýrt, en ég verð að vekja máls á því aftur að mikilvægt er að þetta eftirlit verði óháð og sjálfstætt. Innra eftirlit eitt og sér veltur alltaf á því í okkar litla landi að tengingar eru á milli manna og ég tala nú ekki um ef starfandi lögreglumenn standa að rannsóknunum sjálfum, þá auðvitað undir forsvari héraðssaksóknara. Þetta þykir mér vera mikið lykilatriði að um sjálfstæða og óháða stofnun sé að ræða, þ.e. að lögreglumenn séu ekki að rannsaka aðra lögreglumenn heldur einhver stofnun sem almennt vinnur ekki samhliða lögreglumönnum í því að halda uppi lögum og reglum í landinu, heldur tryggi hún að lögreglumenn fari eftir settum reglum og misbeiti ekki valdi sínu.

Það er einhvern veginn þannig á Íslandi, kannski vegna smæðar landsins, að stjórnsýslan, eða yfirvöld almennt, treystir sér heldur vel. Fólk treystir sjálfu sér almennt heldur vel. Það er auðvitað við því að búast í kerfi sem er samansett af fólki, vegna þess að fólk almennt treystir sjálfu sér vel, það lítur almennt ekki á sjálft sig sem á nokkurn hátt grunsamlegt. Sömuleiðis ef maður vinnur lengi með fólki þá verður alltaf erfiðara og erfiðara að taka ákvarðanir eða gagnrýna störf annarra sem maður er kannski farinn að líta á sem einhvers konar kunningja eða vini. Og þetta hefur sérstaklega sterk áhrif á Íslandi, fullyrði ég. Því þykir mér sérstaklega mikilvægt að við göngum lengra en aðrar þjóðir í því að tryggja sjálfstæði slíkrar stofnunar sem færi með rannsókn kvartana vegna lögreglu og að sú stofnun yrði eftir því sem mögulegt er óháð lögreglunni sjálfri.