144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

námskostnaður.

374. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég á ekki orð yfir þeirri hundalógík og orðhengilshætti sem hæstv. ráðherra telur sér sæma að bera á borð fyrir okkur. Ég er að spyrja hann út í efnahagslegar afleiðingar fyrir mjög viðkvæman hóp vegna aðgerða sem hann er að grípa til og hann neitar að kannast við það og kemur með einhverja fáránlega útúrsnúninga um að ekki sé verið að hindra aðgang að bóknámi í framhaldsskólunum fyrir fólk yfir 25 ára aldri. Eru þá allir hálfvitar nema hæstv. ráðherra? Er það skólameistarafélagið sem skilur ekkert hvað hann er að gera? Er það Félag framhaldsskólakennara sem skilur ekkert hvað hann er að gera? Er skólameistari Fjölbrautaskólans í Ármúla svona mikill kjáni, er hann þess vegna bara algjörlega að misskilja ráðherrann þegar hann tekur ekki á móti fleiri nemendum yfir 25 ára aldri? Er það þannig að Fjölbrautaskóli Snæfellinga sé bara fullur af hálfvitum? Svona málflutningur er ekki boðlegur.

Hæstv. ráðherra viðurkenndi í lok síns máls að hann væri að marka stefnu sem miðaði að því að þetta fólk, yfir 25 ára aldri, væri almennt ekki í framhaldsskólum. Ég er að spyrja hann um efnahagslegar afleiðingar þeirrar stefnu þegar fólki er sigað á miklu dýrari úrræði. Og ég krefst þess að hann standi hér og útskýri það. Þetta hefur augljósar efnahagslegar afleiðingar fyrir fólkið sem hefur nýtt sér þetta úrræði og ég er með tölvupóst eftir tölvupóst eftir tölvupóst frá framhaldsskólakennurum og frá skólameisturum sem útskýra þessa stöðu fyrir mér. Það er dapurlegt að heyra ráðherrann vera á þessu hörmulega plani í málflutningi sínum.

Ég vil útskýringar á því hvernig ráðuneytið kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi engin áhrif á jafnrétti til náms að siga fólki á miklu, miklu dýrari úrræði og loka fyrir því leið almennt að framhaldsskólanámi, ef það er yfir 25 ára aldri í bóknámi. Það er verið að gera það með því að borga ekki með þessu fólki. Og það getur vel verið að hæstv. ráðherra reyni að berja hausnum við steininn og snúa út úr þegar hann er spurður heilbrigðra spurninga, en það er hans vandamál. (Forseti hringir.) Það er alveg greinilegt að allir í framhaldsskólakerfinu skilja þetta mál með öðrum hætti en hæstv. ráðherra.