144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

námskostnaður.

374. mál
[17:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki gert að því ójafnvægi sem hv. þingmaður er í í þessu máli, en það gæti verið honum til hjálpar ef hv. þingmaður vildi nú hlusta því hann kallaði eftir útskýringum. Á síðasta ári var 692 nemendum færra í framhaldsskólunum heldur en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Á því ári sem við vorum að gera fjárlög fyrir gerðum við ráð fyrir því að sú þróun gæti haldið áfram, þannig að við gerðum ráð fyrir því að fækkað gæti um tæplega 500 nemendur á næsta skólaári. Samt sem áður létum við þá fjármuni sem fylgdu þeim nemendum vera áfram inni í framhaldsskólunum. Gott og vel.

Sá fjöldi sem hv. þingmaður er að ræða hér, sem er 25 ára og eldri, eru 500 nemendur. Það er annar hópur. En af því að peningarnir sem fylgja þessum nemendum eru þarna inni og við vitum ekki enn þá hversu stór hópur mun síðan koma að þeim hópi sem við gerðum ráð fyrir að gæti dottið út, vegna t.d. bætts atvinnuástands o.s.frv., eins og gerðist á síðasta ári, þá er meðalframlegð á hvern nemanda núna mun hærra en var t.d. fyrir þremur árum þegar hv. þingmaður var hæstv. ráðherra í ríkisstjórn. Það þýðir að svigrúm skólameistaranna til þess að taka ákvörðun um að taka 25 ára og eldri í bóknám inn í skólann er til staðar, miklu meira en hv. þingmaður gerir sér grein fyrir, virðist vera. Það þýðir, virðulegi forseti, að sú yfirlýsing og sú skoðun hv. þingmanns að búið sé að útiloka og meina og setja reglur um það að 25 ára nemendur megi ekki koma inn í framhaldsskólann lýsir ákveðnum misskilningi. Ég get ekki gert að því þó hv. þingmaður misskilji umræðuna. Ég hef ekki haft neinar athugasemdir um hvers vegna það er, en ég tók eftir því fyrst þegar hv. þingmaður tjáði sig um þetta mál að hann hafði ekki undirbúið sig betur en svo að hann taldi að þetta ætti allt saman við um t.d. verknámið, ég hjó eftir því.

Virðulegi forseti. Við erum að byggja upp kerfi og höfum verið að gera það á undanförnum árum, til þess að taka betur utan um þá nemendur sem eru eldri en þeir sem eru í framhaldsskólunum (Forseti hringir.) þannig að við náum betri árangri. Þar horfum við til nágrannaþjóða okkar, Norðurlandaþjóðanna, sem hafa náð betri árangri en við í þessu. Það er það sem er verið að gera, virðulegi forseti.