144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

fækkun nemendaígilda.

375. mál
[17:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil, varðandi þá fyrirspurn sem hér er lögð fram, vekja máls á því hér í upphafi að hún var lögð fram áður en gerðar voru breytingar við lokaumræðu fjárlaga þar sem bætt var verulega við fjárheimildir til Háskóla Íslands. Að því leyti hefðu í sjálfu sér verið efnisrök til að draga hana til baka eða breyta henni.

Ég vil hins vegar fagna þeirri breytingu sem gerð var við 3. umr. fjárlaga þegar bætt var í og fjölgað og greitt með fleiri nemendum. Þegar fyrirspurnin var lögð fram blasti við sú staða að háskólinn þyrfti að standa frammi fyrir því að velja og hafna hvaða nemendum hann þyrfti að synja um skólavist vegna þess að þeir væru einfaldlega of margir miðað við það sem hann fengi greitt fyrir. Í grófum dráttum, ef ég man rétt, þá dugði breytingin ekki að öllu leyti til til að brúa það bil, en að langmestu leyti.

Með þeirri skýringu vildi ég bara spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann meti stöðuna nú. Mun háskólinn þurfa að grípa til aðgerða vegna ónógra fjárveitinga? Eða telur hann að skólanum sé nú gert kleift að standa alfarið undir kennslu þeirra sem sækjast eftir námi í skólanum?