144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

fækkun nemendaígilda.

375. mál
[17:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil svara í lokin nokkru af því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra. Hann talar mikið um það sem neikvæðan þátt í íslensku menntakerfi að fólk ljúki háskólanámi síðar á lífsleiðinni en í öðrum löndum. Þetta tengist auðvitað líka viðhorfi hans sem við ræddum áðan, löngun hans til að breyta framhaldsskólunum í ungmennaskóla, og þó hann vilji nú ekki kannast við það, tilraunir hans til þess að koma í veg fyrir að skólar fái borgað fyrir fólk sem er yfir 25 ára aldri í skólunum. Ég vil í sjálfu sér efast um meinloku ráðherrans að þessu leyti. Ég vil að við tökum um það opna umræðu á Alþingi hvort það sé sjálfstætt markmið að breyta framhaldsskólakerfinu og skólagönguferli okkar á þann veg að það eigi að vera sérstakt keppikefli að við fáum mjög ungt útskrifað fólk með enga reynslu af vinnumarkaði út úr framhaldsskólum og háskólum.

Prófessor Gestur Guðmundsson hefur skrifað um það lærða grein að hin íslenska leið hafi algjörlega verið vanmetin og lítt rannsökuð í þessu samhengi. Íslenska leiðin lýsir sér í því að fólk fái sér reynslu af vinnumarkaði og fari svo í framhaldsnám. Það þarf ekki að vera verri leið en ungmennaskólahugmynd hæstv. menntamálaráðherra. Og sú leið skapar margháttuð tækifæri fyrir fólk af litlum efnum til þess að safna sér fé fyrir námi, til þess að taka námið á þeim hraða sem hentar því.

Ég vil þar af leiðandi nota þetta tækifæri til þess að biðja hæstv. ráðherra um að staldra aðeins við í löngun sinni til að breyta framhaldsskólakerfinu og háskólakerfinu í ungmennaskólakerfi og velta fyrir sér þeim samfélagslegu verðmætum sem kunna að vera í því kerfi sem við búum við (Forseti hringir.) þar sem fólk er á mjög sveigjanlegum og fjölbreyttum aldri í skólunum, jafnt framhaldsskólum (Forseti hringir.) og háskólum.