144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

skipun sendiherra.

226. mál
[18:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svörin. Fyrir mér vakir alls ekki að ala á tortryggni í garð sendiherra ef ég held að utanríkisþjónustan sé mjög vel mönnuð og geri mjög góða hluti. En mér finnst vont að ferlið við skipun sendiherra sé fólki ekki ljóst. Hæstv. ráðherra rakti ágætlega að það eru auðvitað til plögg um hvaða kröfur eru gerðar til sendiherra en mér finnst það allt þurfa að vera miklu skýrar og fólki ljóst. Til dæmis í Noregi er þetta ákveðið ferli. Það er sett inn auglýsing á vef utanríkisráðuneytisins um lausa sendiherrastöðu og umsóknarfrestur er 14 dagar. Svo tekur við sérstakt embættismannaráð sem fer yfir umsóknir, því næst tekur mannauðsskrifstofa við og tekur viðtöl við sigurstranglega umsækjendur o.s.frv. Þetta er ferli sem menn vita að er til staðar. Í Danmörku, Noregi og Finnlandi hafa menn kosið að leggja áherslu á að það séu ákveðin framgangskerfi innan utanríkisþjónustunnar þannig að sendiherrastaðan sjálf er auglýst á meðal þeirra sem eru í því framgangskerfi.

Ég get alveg séð kostina við þá persónulegu skoðun hæstv. utanríkisráðherra sem hann rakti hér, að hafa kerfið opnara en í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð, og þá kannski förum við meira í átt að bandarísku leiðinni þar sem fólk úr atvinnulífinu og héðan og þaðan er gert að sendiherrum. Þar þurfa menn til dæmis að koma fyrir þingnefnd þegar þeir eru skipaðir sendiherrar, það er eitthvert ferli.

Ég vona að hæstv. utanríkisráðherra sé sammála mér um að það þurfi að taka umræðuna um þetta, að það þurfi að fara í einhvers konar lagabreytingar til þess að gera þetta allt saman miklu skýrara svo það verði algjörlega hafið yfir tortryggni. Skipun sendiherra má ekki vera þannig að fólk líti svo á að þetta sé (Forseti hringir.) leið ráðherra (Forseti hringir.) til að útdeila bitlingum.