144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

umönnunargreiðslur.

409. mál
[18:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður fór í gegnum er spurt að hvort unnið sé að endurskoðun umönnunargreiðslna, samkvæmt 4. gr. laga um félagslega aðstoð, og ef svo er hvert sé markmið endurskoðunarinnar og hvenær áætlað sé að tillögur um breytingar liggi fyrir.

Það skal viðurkennast hér að vinna við endurskoðun umönnunargreiðslna hefur ekki enn farið fram vegna anna í öðrum verkefnum innan ráðuneytisins, en skipaður hefur verið starfshópur sem mun hefja störf á allra næstu dögum. Í honum eiga sæti fulltrúar frá Landssamtökunum Þroskahjálp og frá Umhyggju, auk þess sem Öryrkjabandalagið hefur óskað eftir að fá fulltrúa í hópinn líka, og auk fulltrúa velferðarráðuneytisins. Formaður starfshópsins er Rakel Dögg Óskarsdóttir. Við höfum tengt þessa vinnu við þá heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.

Starfshópnum er ekki aðeins ætlað að endurskoða umönnunargreiðslur til framfæranda fatlaðra og/eða langveikra barna samkvæmt 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, heldur mun hann einnig fara yfir lög nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, eða svokallaðar foreldragreiðslur. Eitt af meginverkefnum hans verður því að skoða kosti og galla þess að sameina umönnunargreiðslur og foreldragreiðslur í eina heildstæða löggjöf um fjárhagslegan stuðning hins opinbera við fjölskyldur langveikra og/eða alvarlega fatlaðra barna.

Hv. þingmaður fór í gegnum þær athugasemdir og ábendingar sem komu fram frá starfshópnum, ég tók ekki eftir hvort hún nefndi það að í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 158/2007, um breytingu á lögum nr. 22/2006, kemur fram að eðlilegt hafi þótt að ákvæði um umönnunargreiðslur í lögum um félagslega aðstoð yrðu tekin til endurskoðunar með það að markmiði að skýra betur reglur um aðstoð til foreldra langveikra og fatlaðra barna vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við veikindi eða fötlun barnanna. Var nefnt að endurskoðun yrði hafin innan tveggja ára frá þeim tíma er lögin voru samþykkt þar sem meðal annars yrði tekið mið af reynslunni.

Við þekkjum það hins vegar ágætlega hvað mikið hefur gerst í íslensku samfélagi og gengið hér á frá því 2007. Því hefur ekki unnist tími til að fara vel yfir þessi mál, enda þótt nefndir hafi verið skipaðar í þeim tilgangi. Ég tel hins vegar vera kominn tíma á þetta mikilvæga verkefni þó fyrr hefði verið, en hið jákvæða er að nokkur reynsla er komin á framkvæmd þessara greiðslna.

Ljóst er að starfshópurinn þarf að skoða þær breytingar sem hafa orðið á aðstæðum fatlaðra og langveikra barna og fjölskyldna þeirra frá því að umönnunargreiðslunum var síðast breytt. Síðan má einnig meta hvernig foreldragreiðslurnar hafa verið að nýtast foreldrum.

Sem dæmi heyrir stofnanavist fatlaðra barna nánast sögunni til. Sú þróun hefur það í för með sér að börn með miklar og flóknar umönnunarþarfir dvelja því í umsjón foreldra sinna. Þá fylgir oft fötluðu eða langveiku barni ýmiss kostnaður umfram önnur börn. Við mat á þörf á hugsanlegum lagabreytingum er því nauðsynlegt að taka mið af þessum breytingum og þeirri þróun sem hefur átt sér stað í þessum málaflokki.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á þá fjármuni sem fara í þetta. Það sem maður hefur fengið að heyra ítrekað frá fólki eru þær áhyggjur að sjá ekki aukningu í fjölda foreldra sem leita eftir umönnunargreiðslum. Með okkar frábæru heilbrigðisþjónustu, og raunar félagsþjónustu, er hægt að bæta lífsgæðin umtalsvert og styðja betur við börnin og þar með fjölskyldurnar, en mikið álag er á fjölskyldur í þessum aðstæðum. Eitt af því sem maður hefur heyrt vísbendingar um, t.d. frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, er að börn eru með mun flóknari greiningar en áður, þannig að maður hefði talið að það ætti að einhverju leyti að endurspeglast í tölunum en það höfum við ekki séð. Ég held að mikilvægt sé að nefndin fari vel yfir það.

Meginmarkmið vinnunnar er því að meta hvernig þeir fjármunir sem eru til ráðstöfunar nýtist foreldrum fatlaðra og langveikra barna sem best og þá hvaða breytingar eru nauðsynlegar á löggjöfinni í því efni. Ég hef ekki mótað mér endanlega skoðun á því hvernig þetta eigi að vera en mun að sjálfsögðu bíða eftir tillögum starfshópsins. Ég geri ráð fyrir að starfshópurinn þurfi eitt ár til að fara vel yfir málin. Ég á von á að fá afhenta skýrslu í árslok 2015. Ég hefði gjarnan viljað sjá að skýrslan hefði legið fyrir fyrr en það mun hins vegar taka tíma, það hefur maður verið að læra á þeim tíma sem maður hefur verið í ráðuneytinu að tíma tekur að vinna vinnuna vel. Þetta er svo sannarlega líka málaflokkur sem skiptir verulega miklu máli að (Forseti hringir.) við vinnum vel og að við vinnum hratt.