144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Líkt og fleiri hv. þingmönnum eru kjarasamningar mér ofarlega í huga í dag, en í gær kynnti Starfsgreinasambandið kröfugerð sína í tengslum við yfirvofandi kjarasamninga á vinnumarkaði. Í þeirri kröfugerð er gert ráð fyrir talsverðri hækkun lægstu launa. Kröfur Starfsgreinasambandsins eru rökréttar og sanngjarnar því þær byggja á þeirri forsendu að íslenskt launafólk geti lifað á dagvinnu en þurfi ekki að þræla sér út í endalausri aukavinnu eða meira en einu fullu starfi.

Óháð viðbrögðum atvinnurekenda hljóta launabreytingar á vinnumarkaði að verða í þessa átt. Slíkur er þunginn í kröfum launafólks. Það er því eðlilegt að gera ráð fyrir verulegri hækkun lægstu launa á næstu missirum og þótt fyrr hefði verið.

Þessi þróun varðar okkur þingmenn að sjálfsögðu þar sem við erum handhafar fjárveitingavalds. Ríkið er stærsti vinnuveitandi landsins og einnig stærsti kaupandi vinnu og þjónustu. Löngu tímabær leiðrétting á kjörum láglaunafólks ætti því að vera ein af forsendum fjárlagagerðar hér í þinginu.

Því miður hefur sitjandi ríkisstjórn lagt meiri áherslu á að veikja tekjustofna ríkisins en að styrkja þá og staðið fyrir breytingum sem líklegri eru til að gagnast þeim ríkari en hinum efnaminni. Það er ljóst að frá þessu verður að hverfa við komandi fjárlagagerð og gera strax frá upphafi ráð fyrir að hraustleg hækkun lægstu launa muni eiga sér stað á næstunni.