144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Fyrir ári og einum degi varð Kvenfélagið Hringurinn 110 ára. Á þeim degi ákváðu Hringskonur að færa Barnaspítala Hringsins 110 millj. kr. Í gær var þess minnst hvað gert hefði verið í tækjakaupum til starfsemi Barnaspítala Hringsins. Barnaspítali Hringsins hefur notið góðverka Kvenfélagsins Hringsins á undanförnum árum og áratugum og er þess vert að minnast hér. Kvenfélagið Hringurinn er farvegur fyrir ýmis góð verk. Velunnarar Hringsins gefa Hringnum fjármuni, íbúðir, peningagjafir til að ráðstafa til Barnaspítala Hringsins. Með þessum gjöfum er spítalinn vel tækjum væddur til að annast skjólstæðinga sína, íslensk börn. Ég vil nota þetta tækifæri í ræðustól til að þakka það sem vel er gert. Ég þakka fyrir hönd íslenskra barna, fæddra og ófæddra. Ég segi takk og ég segi líka: Mínar elskulegu frúr, Hringskonur, takk fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)