144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð að segja að yfirleitt er öryggið ekkert meira þótt byssur séu til staðar. En það er eitthvað sem ég ætla ekki að tala um núna.

Mig langaði að fara aðeins yfir umræðu sem hefur átt sér stað um þau gögn sem Víglundur Þorsteinsson hefur sent á okkur þingmenn og hafa verið í umræðunni í samfélaginu. Af einhverjum ástæðum hefur verið ákveðið að gera þetta að pólitísku máli, en það er rétt að halda því til haga að málið er til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar var hv. þm. Brynjar Níelsson fenginn til þess að halda utan um vinnuna og í raun er verið að rannsaka málið í fagnefnd Alþingis. Mér finnst því alveg furðulegt að fara með þetta í hinar hefðbundnu pólitísku skotgrafir, sem aðallega Framsóknarflokkurinn er að reyna að gera. Rétt skal vera rétt.

Ég verð líka að segja, kæru samþingmenn, að mér finnst afskaplega leiðinlegt þegar verið er að bera upp á fólk einhverjar annarlegar hvatir. Ég sat hérna rétt áðan og heyrði hv. þm. Árna Pál Árnason segja að hann væri hlynntur því að þetta yrði skoðað og svo kemur þingmaður úr Framsóknarflokknum og heldur því fram að þingmaðurinn hafi verið að segja eitthvað allt annað. Og ef það er gagnrýnt er það allt í einu vegna þess að okkur þykir óþægilegt að sitja undir því.

Ég skil ekki svona þvælu. Ég skil ekki af hverju við þurfum að haga okkur eins og við séum á leikskóla. Getum við ekki farið að haga okkur eins og fólk? Ég bið ykkur um það, í það minnsta. Ástandið er alveg nógu ömurlegt í sumum nefndum. Ég ætla ekki að segja meira. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)