144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en hafa þurfi um mörg orð að það er eitt brýnasta verkefni efnahagsstjórnar á Íslandi að losa gjaldeyrishöft. Kostnaðurinn af þeim er gríðarlegur. Viðskiptaráð mat tapaðar gjaldeyristekjur á ári 80 milljarða vegna gjaldeyrishaftanna. Við sjáum að fjármálafyrirtækin eiga erfitt með að fjármagna sig erlendis og þar af leiðandi eru stærri fyrirtækin farin að njóta betri kjara, aðstöðumunur eykst milli minni fyrirtækja og þeirra stóru og fjölmargar aðrar neikvæðar afleiðingar eru af gjaldeyrishöftunum.

Til að ná árangri við þetta mikilvæga verkefni þarf heildarmyndin að ganga upp og það þarf að setja hagsmuni íslensks atvinnulífs og íslenskra heimila og fyrirtækja í öndvegi. Það dugar ekki að einblína á þrotabú og þarfir þeirra eða aðra þætti, það má ekki stíga neitt skref til að losa suma út nema tryggt sé að hægt sé að mæta þörfum einstaklinga, lífeyrissjóða og atvinnufyrirtækja í bráð og lengd. Við getum ekki hneppt íslenskt atvinnulíf í hlekki um ókomna tíð til að þjóna erlendum kröfuhöfum.

Við höfum séð á undanförnum missirum að ríkisstjórnin talar digurbarkalega um afnám hafta en það gerist óskaplega lítið. Yfirlýsingar forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa nú verið svo miklar og stórkarlalegar að það er eiginlega orðin sérstök bókmenntagrein að fara yfir þær. Það dugar að nefna að strax eftir að ríkisstjórnin tók við sagði forsætisráðherra að hann hefði skýra áætlun um afnám hafta sem yrði kynnt í september það sama ár. 15. október 2013 fullyrti fjármálaráðherra að stutt væri í afnám haftanna. Í janúar 2014 sagði forsætisráðherra að ríkisstjórnin hefði skamman tíma til að afnema höftin og 7. júní á síðasta ári sagði fjármálaráðherra — og það er nú kannski hægt að taka undir með honum í því — að það þurfi pólitískan kjark til að afnema höft. Það hefur ekki verið mikið framboð á honum, að því er best verður séð.

Við höfðum í tíð fyrri ríkisstjórnar áætlun uppi á borðum sem var öllum ljós og unnið hefur verið eftir og tryggðum samningsstöðu gagnvart erlendum kröfuhöfum með því að fella eignir þrotabúanna undir höftin í mars 2012. Þá sat Framsóknarflokkurinn hjá og Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði á móti. Og það er sú samningsstaða sem við þurfum nú að nýta. Við höfðum í lok þess kjörtímabils lagt upp hugmyndir um lausn haftanna, sem gerðu ráð fyrir að ríkið og lífeyrissjóðir tækju yfir eignarhald bankanna og að svigrúm upp á 300 milljarða, var áætlað þá, mundi skapast. En síðan hefur ekkert gerst.

Í aðgerðaáætluninni sem fyrir liggur var gert ráð fyrir því að þegar álandsgengi og aflandsgengi færðust saman kæmi til útgönguskatts. Það hefur nú gerst en það bólar ekkert á útgönguskattinum eða útfærslu á honum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður í því efni?

Stóra spurningin er síðan: Hvert er markmiðið? Er höfuðmarkmiðið að afnema höft með íslenska hagsmuni að leiðarljósi eða er ríkisstjórnin orðin verklaus og lömuð vegna þess að hún er orðin fangi ítrekaðra yfirlýsinga forsætisráðherrans um hversu gríðarlega mikla peninga hann ætlaði að skapa með afnámi hafta? Er ekki nauðsynlegt að ríkisstjórnin geri það upp við sig hvort markmiðið er að afnema gjaldeyrishöft eða að afla tekna fyrir ríkið? Hver er afstaða fjármálaráðherrans í þessu efni, hvað setur hann í forgang? Er ekki höfuðverkefnið að losa höftin, finna leið til þess, og getum við ekki sameinast um það meginmarkmið?

Auðvitað viljum við skapa allt það svigrúm sem mögulegt er en höfuðmarkmiðið hlýtur að vera að tryggja árangur við afnám hafta.

Að síðustu þá er leyndin, sem hefur verið yfir verkefninu öllu, mikið umhugsunarefni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir í nýlegri úttekt sinni að mjög mikilvægt sé að fullt gagnsæi sé og fyrirsjáanleiki um áætlun um afnám hafta. Hann vekur áhyggjur og tortryggni þessi leyndarhjúpur og það mikla hringl sem verið hefur á stofnanaumgjörðinni í þessu efni, sífellt nýjar og nýjar nefndir sem virðast vera til vitnis um ágreining innan ríkisstjórnarinnar um leiðina áfram. Er fjármálaráðherra tilbúinn að stíga næstu skref í opnu ferli hér og (Forseti hringir.) ræða við okkur opinskátt og byggja þverpólitíska samstöðu um þetta mikilvæga hagsmunamál þjóðarinnar?