144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér er sett á dagskrá eitt allra stærsta verkefni á sviði efnahagsmála sem ríkisstjórnin vinnur að ef ekki það stærsta. Það skiptir miklu að við ræðum um þetta mál í réttu heildarsamhengi hlutanna.

Fyrst aðeins út af umræðu um þann tíma sem það tekur að afnema höft, ég hef margoft sagt: Það er í sjálfu sér ekkert lagatæknilegt eða efnahagslegt sem kallar á að höftin séu visst lengi. Það þurfa bara ákveðnir hlutir að gerast. Það þarf að létta af þeim þrýstingi sem stendur á krónuna, vegna uppgjörs á slitabúum föllnu bankanna, vegna aflandskrónuvandans og vegna endurfjármögnunarþarfar hér innan lands, áður en það er gert. Fyrir okkar parta, sem sitjum í ríkisstjórninni, þarf það ekkert að taka vissan árafjölda. Það hafa bara ekki fæðst þau skilyrði að þetta sé mögulegt. Það er fyrst og fremst vegna þess að slitabúin hafa ekki náð að ljúka nauðasamningum og hafa ekki haft uppi raunhæfar væntingar um það hvernig það getur gerst svo að hægt sé að gefa vilyrði um undanþágur frá gjaldeyrishöftum. Það hefur tafið ferlið. Þess vegna hef ég oft sagt í opinberri umræðu um þetta: Þetta getur tekið tiltölulega skamman tíma ef hægt er að stilla saman væntingar. Það hefur ekki gerst.

Þó hafa ýmsir jákvæðir hlutir gerst á undanförnu einu og hálfu ári eða svo. Þar vil ég nefna að við höfum kortlagt þennan undirliggjandi vanda miklu betur en við höfðum gert fram að þeim tíma. Við höfum fengið erlenda ráðgjafa okkur til liðsinnis, sérstaklega síðasta rúma hálfa árið. Ég met það svo að það hafi verið mjög mikið gagn af því. Nú síðast, þegar við erum að uppfæra skipulag þessarar vinnu, þá er Seðlabankinn að koma nær og nær vinnunni og að setja fólk til starfa í haftaafnámsvinnunni. En það er mín skoðun að við höfum kannski sett of mikinn kraft í framkvæmd haftanna, að viðhalda höftunum, að tryggja að við værum að fylgja lögum og reglum um það hvernig ætti að framfylgja höftunum. Við vorum kannski farin að venjast því á einhverjum tímapunkti og að verða sérfræðingar í því að viðhalda höftum. Of lítill kraftur fór í að kortleggja afnám haftanna.

Annað sem ég gæti nefnt er að fram undan er síðasta útboðið á vegum Seðlabankans sem markar ákveðin tímamót hvað varðar aflandskrónuhlutann. Fundir með kröfuhöfum sem voru haldnir undir lok síðasta árs gáfu okkar sérfræðingum líka innsýn inn í það hvaða væntingar eru þar. Allt þetta hjálpar okkur við að móta heildstæða áætlun vegna þess að það er rétt, sem málshefjandi nefnir hér, að við þurfum heildstæða áætlun sem tekur á öllum öngum þessa máls.

Ég vil ekki líta þannig á að við stöndum frammi fyrir vali um að hafa höft eða hafa miklar tekjur af afnámi haftanna, þ.e. að við höfum höftin á meðan við finnum ekki leiðir til að afnám þeirra skapi ríkissjóði miklar tekjur, það er ekki verkefnið. Þetta snýst miklu frekar um að viðhalda stöðugleika. Þeim efnahagslega stöðugleika sem hefur skapast hérna á undanförnum árum og við ætlum ekki að skipta á höftunum og stöðugleikanum heldur einmitt að verja stöðugleikann á sama tíma og höftin hverfa. Þetta mun gerast í skrefum, en ég hef, eins og ég hef áður sagt, trú á því að hægt sé að stíga stór skref innan skamms á grundvelli þeirrar vinnu sem er í undirbúningi í Stjórnarráðinu. Það hafa aldrei fleiri verið í fullu starfi við að þróa þær lausnir sem við munum þurfa að láta reyna á á næstu mánuðum en einmitt í dag.

Ég vil láta það koma fram í þessari umræðu að ég hef ávallt stutt gott samráð milli flokka frá því að ég var í stjórnarandstöðu. Það var kannski helsta ástæða þess að við lögðumst gegn málinu á sínum tíma, sem vitnað var til hér, að stjórnarandstaðan var algjörlega í myrkrinu og skildi ekkert hvers vegna verið var að herða höftin. Við vorum á móti því að herða höftin á þeim tíma sem við töldum að við ættum að vera farin að létta þeim, meðal annars vegna þess að stjórnarandstaðan væri algerlega í myrkrinu. (Gripið fram í.)

Það skal sagt hér að ég styð áframhaldandi samráð á þeim pólitísku forsendum sem hafa gilt um það. Þó að smá hikst hafi komið í þá vinnu nýlega, þá stendur hugur minn til þess að viðhalda því og tryggja sem allra mesta samstöðu um þau skref sem stigin verða í framhaldinu.