144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:31]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Í þau rúmu 1.100 ár sem við höfum búið í þessu landi höfum við búið við frjálst flæði fjármagns, líklega í 1.015 ár. Í 60 ár bjuggum við við gjaldeyrishöft og síðan aftur í þau sjö ár sem liðin eru frá hruni. Þau gjaldeyrishöft sem nú eru við lýði koma einungis til vegna þess að verið er að varðveita stöðugleika. Í þrotabúum föllnu bankanna er, undarlegt nokk, íslenska ríkið einungis lítill aðili, einungis sem kröfuhafi. Því er þetta mál mjög vandmeðfarið, að íslenska ríkið blandi sér ekki í þetta með þeim hætti að það leiði til málaferla og það lengi í snörunni.

Þrotabúin eru sérkafli. Annar kafli er svokölluð snjóhengja sem er afrakstur af vaxtamunaviðskiptum á árunum fyrir 2008. Þar stendur upp á íslenska ríkið. En enn og aftur, segi ég, til að varðveita stöðugleika í gengi og þar með verðlagsbreytingum, verður að fara afskaplega varlega. Það verður að ná samkomulagi við kröfuhafa um eftirgjöf á eignum, sérstaklega á innlenda hlutanum, til að hér losni um greiðslur til kröfuhafa af erlendu eignunum sem eru í raun þau einu verðmæti sem eru í þessum búum.

Það er aldrei hægt að líta á eignir þrotabúanna sem einhvers konar mark til skattlagningar. Ég hallast að því að það sé hættulegt að reikna með útgönguskatti öðruvísi en hér verði löng málaferli. En þetta mál þarfnast þess að stigið verði varlega til jarðar og gagnsæið þarf að vera til staðar. (Forseti hringir.) Menn verða stundum að halda að sér höndum, sýna ekki á spilin. (Forseti hringir.) Til þess er verið að reyna að spila þetta til að varðveita stöðugleikann.