144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Áðan sagði hæstv. ráðherra að unnið væri að heildstæðri áætlun. Við fáum kannski svör við því á eftir hvaða áætlun er þá unnið eftir núna. Fyrir nákvæmlega ári kom það einmitt fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að unnið væri hörðum höndum að gerð áætlunar um hvernig ætti að komast á næsta stað í ferlinu og raunar sagði svo hæstv. forsætisráðherra í febrúar 2014, af því að hér hefur verið rætt um að hæstv. ráðherrar hafi talað af varfærni, að vissulega væri unnið að áætlun en hún yrði ekki birt og henni yrði haldið leynilegri. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sammála þeim orðum hæstv. forsætisráðherra frá því í febrúar 2014 en vil líka ítreka, af því að hér hefur verið starfandi hópur þar sem fulltrúar stjórnarandstöðu og stjórnarflokka hafa setið saman, að mér finnst algjört lykilatriði ef það á að vinna einhverja áætlun um afnám hafta að við tökum öll þátt í því, að það sé verkefni okkar allra en ekki einungis verkefni ríkisstjórnarinnar sem svo verði kynnt á einhvern hátt. Annars getum við ekki öll verið ábyrg fyrir þeirri áætlun. Áætlunin er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar ef hún er eingöngu unnin af henni.

Það kom líka fram hjá hæstv. ráðherrum áðan að það hefði hlaupið snurða á þráðinn eða eitthvað slíkt í störfum hópsins og vissulega er það rétt. Ekkert fundarboð hefur borist í þennan þverpólitíska hóp síðan snemma í desember. Á meðan hafa birst fregnir af framvindu mála í fjölmiðlum, svo sem um skipan enn einnar nefndar sem hafi verkefni tengd afnámi fjármagnshafta með höndum, að lagt hafi verið fram tilboð um einhvers konar eignaskipti til að greiða götu nauðasamninga, og því finnst mér mjög mikilvægt að því verði komið á hreint hvort ætlunin sé að halda áfram þessu samráði, hvort alvara sé á bak við það og hvort ætlunin sé að hér taki allir þátt í að móta þessa nýju áætlun sem hefur verið í vinnslu nánast allt kjörtímabilið, eins og hefur komið fram. Það liggur alveg fyrir að annaðhvort verðum við öll með og þá er það alvörusamráð, annars ber ríkisstjórnin bara ábyrgð á þessu máli.

Ég held að það sé (Forseti hringir.) affarasælast í ljósi stærðar málsins og hagsmunanna sem eru svo miklir fyrir alla að við gerum þetta saman. Svona liggur þetta.