144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kýs að trúa því að hæstv. fjármálaráðherra átti sig vel á því hvað það er mikilvægt að það myndist um þessa umsvifamiklu aðgerð pólitísk samstaða. Hún bara verður að vera fyrir hendi.

Tökum dæmi. Ef ákveðið verður að fara í útgönguskatt, að það verði niðurstaðan, að við viljum létta þrýstingnum af þessu ferli með því að það verði útgönguskattur, þá þarf að hafa mjög sterk pólitísk bein í það. Útgönguskattur verður að ganga jafnt yfir alla. Hann verður ekki bara settur á kröfuhafana, hann verður þá settur á lífeyrissjóðina líka og alla þá sem þurfa að færa fjármuni úr hagkerfinu. Það þarf að vera þverpólitísk samstaða um að það sé í lagi vegna þess að annars verður þessi skattur bitbein hér um missiri og ár.

Ég efast um, og ég er sammála þeim sem hafa haldið því á lofti, að það standist að slíkur skattur verði tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Ég er ekki viss um að það mundi standast fyrir dómstólum sem málefnaleg ástæða fyrir þessum skatti, að við ætlum að reyna að græða á þessu öllu saman. Það eru miklar freistingar fyrir hendi hér í þessum sal og víðar að reyna að græða mjög mikla peninga á útgönguskatti eða öðrum leiðum við afnám hafta. Það þarf að forðast slíkar freistingar og það reynir á pólitíska samstöðu í því og samtal þannig að hér er augljóst dæmi. Ég nefni eina leið sem hefur verið nefnd í þessu, leið til afnáms hafta, og það er augljóst að hún krefst pólitískrar samstöðu og ég hvet hæstv. ráðherra til að einbeita sér að því að skapa hana.

Svo þurfum við auðvitað að horfa á heildarmyndina og til langs tíma. Þetta snýst ekki bara um búin. Ég er í raun farinn að hallast að því að uppgjör búanna sé eiginlega það auðveldasta í þessu. Svo er það fjárfestingarþörf Íslendinga, innlendra aðila, erlendis, um áratugi, lífeyrissjóðanna, annarra, og við þurfum að spyrja okkur: Höfum við (Forseti hringir.) gjaldmiðil í landinu sem stenst allan þann þrýsting um áratugina?