144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta hefur verið um allt ágætisumræða, en það er kannski um árin strax eftir hrun að segja að ég held að ekki bara stjórnarandstaðan hafi verið í ákveðnu myrkri, við vorum öll í ákveðnu myrkri. Við áttuðum okkur til dæmis alls ekki á því hversu mikill þrýstingur var á íslensku krónuna hér strax eftir höftin. (Gripið fram í.)Upphaflega var út frá því gengið að við værum fyrst og fremst að eiga við aflandskrónuvandann upp á nokkur hundruð milljarða. Það var snjóhengjan sem við ræddum um og var meginástæða haftanna eins og málið var lagt upp í upphafi. Síðan smám saman yfir tíma gera menn sér grein fyrir því að það eru ófjármagnaðar skuldbindingar hér innan lands til næstu ára sem þarf að eiga við og að gjaldeyrisjöfnuðurinn, þegar horft er til slitabúanna, muni alls ekki duga til þess að greiða kröfuhöfunum út eins og væntingar þeirra stóðu til. Þetta hefur gjörbreytt myndinni.

Eftir hvaða áætlun er þá verið að vinna? Auðvitað er í grunninn verið að vinna eftir þeirri áætlun sem var lagt upp með strax eftir hrunið, en við höfum þurft að gera breytingar og aðlaganir eftir því sem staðan hefur skýrst. Ég vil leggja áherslu á það að sú vinna sem ég vísa til að verið sé að sinna í stjórnkerfinu er fyrst og fremst sérfræðingavinna. Þetta er ekki eitthvert pólitískt starf þar sem menn velta fyrir sér hvaða pólitíska aðferðafræði gagnist best. Við erum að reyna að kortleggja vandann með aðstoð sérfræðinga, t.d. með því að gera okkur grein fyrir því nákvæmlega hvernig greiðslujöfnuðurinn lítur út, hvernig spá er um hann til næstu ára, hvaða lagalegu þætti þarf að taka með í myndina, þegar allir valkostir eru teknir upp á borðið, allt frá þeim sem hafa verið nefndir hér, eins og skattinum, og yfir í gjaldþrotaleiðina.

Gjaldþrotaleiðin hefur verið kortlögð alveg sérstaklega vegna þess að hún er kannski sú sem er nú þegar skrifuð í lögin. Við vitum hvað lögin segja, en við þurfum að gera okkur nákvæmlega grein fyrir því. Allir þessir kostir hafa verið skoðaðir. Þetta er því fyrst og fremst sérfræðingavinna sem er verið að vinna í stjórnkerfinu og það þurfti að gera mikið átak til þess að skýra myndina þannig að við stöndum frammi fyrir valkostum (Forseti hringir.) sem hafa verið kannaðir til hlítar. Ég vonast til þess að (Forseti hringir.) á hinum pólitíska samráðsvettvangi verði (Forseti hringir.) hægt að kynna þá kosti á grundvelli þessarar vinnu á næstu vikum og (Forseti hringir.) mánuðum.