144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að koma hingað og leiðrétta mál sitt frá því í gær. Mér þykir til fyrirmyndar af hálfu ráðherra að gera slíkt og mætti það örugglega gerast oftar og hafa gerst.

Ég ætla aðeins að fara í gegnum þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum, um skipulag ráðuneyta og stofnana. Við vorum að ræða það í síðustu viku og ýmislegt kom fram. Eins og var nefnt finnst mér ánægjulegt að sjá að í upphafi eru dregnar fram í örstuttu máli þær breytingar sem frumvarpið felur í sér áður en farið er að fjalla um einstök efnisatriði þess og lagagreinar. Það er ágætt til að átta sig á í fljótu bragði um hvað svona mál snýst og mætti svo vera í miklu fleiri tilvikum. Ég held að þeir sem setja saman og semja frumvörp mættu taka sér það til fyrirmyndar.

Mig langar að byrja á því að fjalla um 1. gr. Þar er verið að setja inn ákvæði sem tekið var út um að ráðherra geti ákveðið aðsetur stofnunar sem heyrir undir hann, nema mælt sé á annan hátt í lögum. Hér er tilgreint að ákvæðið hafi væntanlega fallið óvart út þegar lögin voru endurskoðuð árið 2011. Ég er ekki sannfærð um það. Ég hef eiginlega meiri trú á því að fólk hafi almennt ekki talið þörf á því að hafa ákvæðið inni, en veit svo sem ekkert nánar um það. Það hefur alla vega ekki verið ástæða til þess að mati síðustu ríkisstjórnar að bæta því inn í aftur eða leiðrétta, eins og hér virðist vera lagt upp með að verið sé að gera.

Mér finnst verið að gefa ráðherra miklar heimildir. Talað er um almenna heimildir handa honum til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra. Þrátt fyrir að tekið sé fram að Alþingi geti auðvitað með lögum ákveðið að stofnanir skuli staðsettar á tilteknum stað er það samt sem áður svo að ráðherra getur með þessari heimild gert það líka, nái þetta fram að ganga óbreytt.

Það segir síðar í þessari grein að æskilegt kunni að vera að setja almenn viðmið um tilhögun breytinga vegna aðseturs stofnana varðandi stöðu og réttindi starfsmanna og það sé þá í höndum fjármálaráðherra að meta hvort slík viðmið skuli gefin út. Þetta finnst mér mjög opið, hvort það sé æskilegt eða kunni að vera það. Ég held að ævinlega hljóti að þurfa að hafa í huga réttindi og skyldur starfsmanna við svona breytingar og að í rauninni eigi að setja reglugerð samhliða þessari lagasetningu þannig að það sé alveg á hreinu.

Hér hefur verið rætt svolítið í þessu samhengi um flutning tiltekinnar stofnunar til Akureyrar. Ég hef ekkert um það að segja í sjálfu sér annað en að ég hef trú á því að heimildin til að flytja heilu stofnanirnar til eða frá geti verið mjög kostnaðarsöm fyrir ríkið og ekki endilega byggð á faglegu mati heldur sé þetta í rauninni, eins og sýndi sig í fyrrnefndu máli, aðeins ákvörðun ráðherra. Burt séð frá öllu því sem komið hefur fram varðandi það mál, hvort sem það snýr að fagmennsku, mannauði eða öðru slíku, er hætta á því að það geti gerst aftur sem einu sinni hefur gerst og það akkúrat núna. Því finnst mér slík heimild ekki eiga að vera í þessum lögum. Ég held að það eigi ævinlega að leggja það fyrir Alþingi sé áhugi fyrir því að rífa stofnanir upp með rótum og flytja þær.

Það er mikill kostnaður sem fylgir þessu tiltekna dæmi en eins og ég segi ætla ég ekki að ræða þá stofnun, Fiskistofu Íslands, og flutning hennar. Mér finnst hann sýna og sanna að hér sé verið að búa til ramma utan um eitthvað sem búið er að framkvæma. Mér finnst það koma ákveðnu óorði á flutning starfa út á landsbyggðina að framkvæma flutninginn á þennan hátt. Ég er ekki heldur fylgjandi ákveðnu ráðherraræði, að draga til sín aukið vald eins og mér finnst þetta frumvarp bera svolítið merki um. Svo ég klári þetta með Fiskistofu bendi ég líka á að Eyþing, Samband sveitarfélaga í Eyjarfirði og Þingeyjarsýslum, áttu ágætisskýrslu um það mál sem sneri m.a. að flutningi Fiskistofu á fimm ára tímabili. Það hefði verið vænlegra til árangurs og líka vænlegra gagnvart viðhorfi fólks til flutninga opinberra starfa.

Við vitum að töluvert hefur verið skorið niður í opinberum störfum. Á þeim tíma sem bæði síðasta ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn hafa verið að störfum hefur opinberum störfum úti á landi fækkað og eitt svona „drop“ niður á einhvern tiltekinn stað leysir ekki þann vanda. Ég held að við eigum að sjá þessi mál fyrir okkur í stærra samhengi og horfa fram í tímann.

Ég get nefnt mörg dæmi um þetta. Við fækkuðum hjá Vinnumálastofnun, Hafrannsóknastofnun, umboðsmanni skuldara á Akureyri, sem stóð sig afskaplega vel og vann hratt og vel þau mál sem þar voru en einhverra hluta vegna þarf landsbyggðin að blæða um leið og skorið er niður. Við getum alveg komið í veg fyrir að það sé alltaf fyrsta ákvörðun stofnana að skera niður útibúin sín, ef við getum sagt sem svo. Ég held að við getum haft áhrif á það á annan hátt. Það má líka segja að þau ársverk sem hafa lagst af á landsbyggðinni eru mikið í heilbrigðisþjónustu og mikið til unnin af konum. Við þurfum að horfa á hlutina í miklu stærra samhengi en hér er gert. Mér finnst ekki gott að ráðherra hafi nánast einn um þetta að segja.

Mig langar að tala um tvær greinar saman af því að þar er verið að tala um að ráðherra þurfi eða beri einungis skylda til að skýra frá mikilvægum málefnum á fundum ríkisstjórnar þegar tveir eða fleiri ráðherra koma fram sameiginlega á slíkum fundi gagnvart aðilum að stjórnkerfinu eða utan þess. Ákvæðið tekur sem sagt ekki til funda þar sem ráðherra kemur einn fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir að þeir fundir séu algengastir.

Það er talað um að hagsmunirnir ríkisstjórnarinnar liggi ekki í því að fá upplýsingar um alla fundi heldur einungis um mikilvæga fundi. Það er því ráðherrans að ákveða hvað er mikilvægt gagnvart samstarfsráðherrum sínum en ekki annarra. Svo er skylda ráðherra til að bera mikilvæg stjórnarmálefni upp í ríkisstjórn stjórnarskrárbundin en eins og ég segi er það undir ráðherra komið hvað hann telur mikilvægt. Þetta er svolítið sérstakt af því að í 4. gr., þar sem verið er að tala um ráðuneyti og skráningu upplýsinga og hvað beri að skrá og hvað ekki, er lagt til að í staðinn fyrir að það sé skylda að skrá formleg samskipti verði skylda að skrá mikilvæg samskipti á fundinum. Enn og aftur er matið á því hvað sé mikilvægt mjög huglægt. Það er vitnað í upplýsingalögin til að skerpa á skyldu annarra stjórnvalda að halda til haga mikilvægum upplýsingum og auðvitað er verið að vitna í gegnsæi í stjórnsýslunni. Í 10. gr. snýr a-liður greinarinnar að stjórnvaldinu sjálfu þar sem segir að þau eigi að skrá öll samskipti sín við fólk utan stjórnsýslunnar og að skrá beri niður munnlegar upplýsingar, samskipti á fundum eða í samtölum, það hafi sama vægi og skriflegar upplýsingar. Mér finnst það einkennilegt í ljósi þess sem er sérstaklega tekið fram í athugasemdum um 4. gr. Vitnað er í þáverandi formann allsherjar- og menntamálanefndar á löggjafarþingi 139 sem segir að eðlilegt sé að ráðherrar og ráðuneyti geti átt samtöl frammi á gangi eða í síma og annað því um líkt án þess að það sé skráð. Mér þykir það ósköp eðlilegt en mér finnst óeðlilegt að öll slík samskipti við aðila utan Stjórnarráðsins beri að skrá. Af hverju gildir ekki það sama um þetta ef talað er um það í formi gegnsæis?

Í athugasemdum um 6. gr. er talað um innra skipulag ráðuneytanna og mér sýnist það helst ganga út á að fækka svokölluðum stjórnsýslustofnunum og búa til starfseiningar innan ráðuneytisins eða einhverjar ráðuneytisstofnanir. Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd og þar er verið að búa til slíka stofnun sem heitir Menntamálastofnun með því að sameina Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun. Þetta eru ólíkar stofnanir og ekki endilega eining um sameininguna. Það er verið sameina stofnanirnar og gera þær að stjórnsýslueiningu sem hefur ekki stjórn heldur er gert ráð fyrir fagráðum og það finnst mér innstæðan í þessari grein. Talað er um að verkefni hafi flust frá ráðuneytum til stofnana undanfarin ár og úrskurðarnefndum fjölgað. Ég get alveg tekið undir að fækka megi úrskurðarnefndum og fara aðeins í gegnum það. Ég sit í hópi um neytendamál og þar er mikið fjallað um úrskurðarstofnanir. Ég get alveg fallist á að þeim megi fækka og eflaust einhverjum stjórnsýslustofnunum. Ég ætla ekki að draga neitt úr því að það geti verið. Ég hef samt áhyggjur af þeirri tilhneigingu að draga allt inn í ráðuneytið og velti fyrir mér þessari armslengd í mörgum tilvikum og því sem mér finnst vera lagt upp með hér, að fólk telji að hægt sé að búa það til innan ráðuneytisins samt sem áður, þrátt fyrir að verið sé að ræða að hafa það þar innan dyra.

Hér er líka talað um að mótuð verði löggjafarviðmið um hvers konar stjórnsýslunefndir eigi rétt á sér. Það er talað um að það séu nefndastörf innan Stjórnarráðsins og mig mundi langa til að vita til hvaða stofnana eigi að horfa. Neðar í sömu greinargerð um 6. gr., varðandi hvort það eigi að ráðast í slíkar breytingar, er vitnað aftur í þessa nefnd Stjórnarráðsins þar sem verið er að greina stöðu styrkleika og veikleika stofnanakerfis ríkisins. Hvenær getum við fengið að sjá þá niðurstöðu? Verður henni skilað á einhvern hátt eða er þetta eingöngu fyrir ráðuneyti eða Stjórnarráðið? Er breytinga að vænta í kjölfarið? Væntanlega er nefndin ekki einungis að störfum til að vera að störfum, hún á að skila ráðherra einhverjum hugmyndum.

Ég sé að tími minn hér styttist óðum og ég er rétt að byrja. Meðferð kærumálanna innan stofnunarinnar, og þá er ég að tala um armslengdina sem ég nefndi áðan, það sem mér finnst ekki hljóma vel er að það eigi að vera sérstök starfseining innan ráðuneytisins og hún er hér talin fullnægjandi til að mæta þeim sjónarmiðum sem hafa legið hjá úrskurðarnefndum í þessari fjarlægð. Það er líka talað um að jafnvel sé hægt að setja fót sérstakan stjórnsýsludómstól. Ég mundi vilja heyra í hæstv. ráðherra þegar hann lokar þessu máli, hvort hann sjái fyrir sér að sá sérstaki stjórnsýsludómstóll komi þá í staðinn fyrir einhverjar úrskurðarnefndir og hverjar hann mundi helst leysa af hólmi.

Virðulegi forseti. Ég verð að koma í aðra ræðu því að ég á eftir niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis, ég á eftir siðareglur og margt annað. Ég verð að láta þetta duga í fyrstu ræðu og bið um að ég sé sett á mælendaskrá aftur.