144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:04]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mörg undanfarin ár hefur verið ákveðinn leki af störfum til höfuðborgarsvæðisins af hálfu hins opinbera í nafni hagræðingar, sameiningar o.s.frv. Lekinn er orðinn svo stöðugur og langvarandi að við lítum nokkurn veginn á hann sem eðlilegan. Þingmaðurinn ræddi um flutning Fiskistofu til Akureyrar og sagði að það þyrfti að byggjast á einhvers konar faglegu mati um flutning stofnana. Ég vil því spyrja þingmanninn, hvernig geta menn búið til faglegt mat um flutning stofnana frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar eða öfugt. Eins og þingmaðurinn nefndi líka er verið að flytja Námsmatsstofnun úr Reykjavíkurkjördæmi í Suðvesturkjördæmi. Það byggist held ég ekki á neinu sérstöku faglegu mati. En ég vil spyrja þingmanninn: Á hverju getur … (Gripið fram í.) Þetta er ekki sama kjördæmi, hv. þm. Helgi Hjörvar, þetta er úr Reykjavík, úr Borgartúni í Kópavog þar sem Námsgagnastofnun er. Á hverju getur faglegt mat um flutning stofnana byggst?