144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:08]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að menntun hefur aukist sums staðar en af því að við vorum að fjalla um menntunarmál, svo ég fari nú út í allt annað, þá er nú verið að skera niður þar sem menntunarstigið er hvað lægst, eða úti á landsbyggðinni. Samgöngur hafa jú víða batnað og allt það.

Landsbyggðin er mjög vel undir það búin víðast hvar að taka við stofnunum, ég geri ekki lítið úr því, og ég hef ekki sagt neitt um það hvort ég sé hlynnt eða andvíg þeim tiltekna stofnanaflutningi sem hér átti sér stað, af því að mér finnst þetta ekki bara snúast um þá tilteknu stofnun. Mér finnst þetta snúast um það að ráðherra, hver svo sem hann er hverju sinni, getur einhendis ákveðið að flytja stofnun eitthvert. Eins og ég sagði áðan, og mér finnst það rökstyðja mál mitt vel, að fólk á samskipti við tiltekna stofnun, þarf að eiga við hana daglegt samstarf eða mánaðarlegt samstarf eða hvernig því er nú háttað hverju sinni, þeir aðilar eru þá ekki starfsmenn stofnunarinnar — við getum haldið því fólki sem jú vill gjarnan vera á sínum stað þar sem það er, flest hvert vænti ég — að þá fáum við væntanlega umsagnir frá mjög mörgum aðilum sem snerta viðkomandi stofnun. Það held ég að geti orðið til þess að við getum myndað okkur faglega skoðun, þingmenn og fleiri sem kæmu að þeirri ákvörðun. Og þá yrðu miklar og skiptar skoðanir um það mál. Dregnir yrðu fram í dagsljósið kostir og gallar við að flytja eitthvert annað í staðinn fyrir að sitja uppi með það, hver svo sem stofnunin er. Við munum eftir því þegar Landmælingar voru fluttar upp á Akranes. Það eru höfuðstöðvar stofnana úti á landi, það er ekki eins og það hafi ekki gerst áður, það hefur bara farið vel og ekki verið vandamál.

En það breytir því ekki að mér finnst að við eigum að vanda stjórnsýsluna í kringum þetta og mér finnst þetta ekki vera leiðin til að vanda stjórnsýsluna.