144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram. Kannski er best að byrja á því að segja hvað ég ætla ekki að tala um. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um 4. gr. frumvarpsins sem fjallar um skráningu samskipta og ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um 8. gr. sem fjallar um siðareglur, en umboðsmaður Alþingis kom inn á bæði þessi atriði auk hlutverks aðstoðarmanna í áliti sínu vegna samskipta fyrrverandi innanríkisráðherra og fyrrverandi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur mælst til þess og það kom fram á fundi hans með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að farið verði sérstaklega yfir þessi atriði. Ég veit að nefndin ætlar sér að gera það, enda fer þetta mál til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hún mun auðvitað fara yfir þessi mál í því ljósi.

Það eru þrjú atriði sem mig langar að ræða í dag. Það er 1. gr. sem lýtur að staðsetningu stofnana og ákvörðunarvaldi ráðherra þar um. Það er 6. gr. sem fjallar um styrkingu ráðuneyta, það er alla vega meining þessa frumvarps, og síðan b-lið 10. gr., um tilfærslu á starfsfólki án auglýsinga.

Svo við byrjum á 1. gr. sem er nú aðalfúttið, þar fer forsætisráðherra fram á að þingið gefi ráðherrum ríkisstjórnarinnar vald til að ákveða aðsetur stofnana sem undir þá heyra, nema á annan veg sé mælt í lögum. Það vita auðvitað allir að hér er verið að skjóta lagastoð undir ákvörðun hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar sem ætlaði sér að flytja Fiskistofu með manni og mús frá Hafnarfirði til Akureyrar án þess að sækja til þess sérstaka lagaheimild. Og í stað þess að sækja um lagaheimild fyrir Fiskistofu þá á bara að breyta lögunum í heild sinni og veita þar með geðþóttaávísun til ráðherra svo þeir geti flutt stofnanir að vild.

Það voru einu sinni heimildir til ráðherra til að flytja stofnanir að vild en í dómi Hæstaréttar í svokölluðu Landmælingamáli komst Hæstiréttur að því að ráðherra væri ekki heimilt að flytja stofnun án lagaheimildar. Hæstiréttur túlkaði lögin þannig og dæmdi samkvæmt því að það væri Alþingi sem ætti að ákveða um staðsetningu stofnana. Kæmi ekki bein skipun frá Alþingi í formi lagasetningar þar um, væri svo álitið að þær ættu að eiga aðsetur sitt í Reykjavík, enda Reykjavík höfuðborg landsins. Þessu var breytt í kjölfar dómsins, en með endurskoðun laganna þar sem var unnið eftir bestu reglum og hefðum stjórnsýslunnar og laga þar um var heimildin felld úr gildi og það varð aftur í höndum Alþingis að ákveða staðsetningu stofnana. Geri Alþingi það ekki með beinum hætti telst svo til að þær eigi að vera í höfuðborginni. Ég sé enga ástæðu til að breyta þessu. Stofnanir eru eins og annað, þær eru breytileg fyrirbæri, misbreytilegar þó. Sumar eru mjög formfastar en aðrar hafa mismunandi tilgang eftir mismunandi tímum og ýmis sjónarmið geta ráðið því hvar er best að hafa stofnanir. Það er mjög eðlilegt að við höfum það áfram þannig að svo stórar ákvarðanir séu teknar af þingmönnum sem eru kjörnir af kjósendum en ekki í reykfylltum bakherbergjum.

Þetta mál er auðvitað til komið út af Fiskistofumálinu en ég verð að segja að tillögur norðvesturnefndar vekja líka mikla tortryggni í þessu samhengi. Mér finnst að forsætisráðherra eigi að opinbera þær tillögur fyrst hann er kominn fram með þetta frumvarp svo við vitum hvað er í spilunum. Við höfum fengið að lesa í fréttum að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins urðu ekki hrifnir og við höfum fengið að vita að þarna sé talað um Rarik og skiparekstur Landhelgisgæslunnar. Hvort það er eitthvað meira undir veit ég ekki, en til að draga úr tortryggni í umfjöllun um þetta frumvarp legg ég til að forsætisráðherra opinberi tillögurnar. Hitt ber að benda á að hefði verið búið að breyta lögum í samræmi við vilja hæstv. forsætisráðherra og ef ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu verið ánægðir með tillögur norðvesturnefndar þá hefðu þau getað gert það og ákveðið sín á milli hvernig þau vildu raða stofnunum niður í mismunandi sveitarfélög. Ég held að það sé ekki aðferðafræði sem hugnist fólki í dag og ég treysti því að þetta ákvæði verði ekki að lögum.

Þá komum við að 6. gr. Þar óskar forsætisráðherra eftir því að við veitum honum heimild til að setja á fót sérstakar starfseiningar, stofnanir sem starfræktar eru sem hluti af ráðuneytinu. Ákveðinn embættismaður stýri slíkum starfseiningum í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra. Svo fer maður að skoða athugasemdir með greininni. Þá er vitnað í 7. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem talað er um að styrkja þurfi ráðuneytin og mannauð þeirra en þau væru m.a. vegna smæðar sinnar veik og illa í stakk búin til að takast á við sífellt og fleiri og flóknari stjórnsýsluverkefni. Þetta ætlar ríkisstjórnin að leysa með því að búa til sérstakar stofnanir innan ráðuneytanna. Ég vil benda á að síðasta ríkisstjórn í kjölfar þessarar skýrslu fór í mikla vinnu og ný lög um Stjórnarráðið eru m.a. niðurstaðan úr þeirri vinnu. Það var farið í það að styrkja markvisst ráðuneytin eins og mögulegt var miðað við fjárhagsaðstæður. Þau voru stækkuð og reynt að efla þau eftir fremsta megni. Mér finnst það óforskammað, herra forseti, að koma hingað og vitna í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og segja að þetta furðulega ákvæði sé í anda hennar, þegar gjörðir ríkisstjórnarinnar segja okkur allt aðra sögu. Hvað er ríkisstjórnin búin að gera? Hún er í raun búin að skipta upp aftur ráðuneytunum. Velferðarráðuneytið er nú með ekki bara tvo ráðherra, sem gæti verið eðlilegt við einhverjar kringumstæður enda víðfeðmir málaflokkar þarna undir sem margir fagaðilar hafa beðið eftir árum saman að yrðu sameinaðir í eitt ráðuneyti, en það er í raun búið að skipta ráðuneytunum upp. Þau heita enn þá velferðarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en það er verið að búa til ný ráðuneyti innan þessara stærri eininga þannig að það er algerlega í andstöðu við hugmyndir um að styrkja og efla Stjórnarráðið. Þarna er beinlínis verið að veikja það til að koma fleiri ráðherrum í sæti og til að geta, í anda afturköllunar, vikið af þeirri braut sem fyrri ríkisstjórn var á.

En það er ekki nóg með það og nú ætla ég að víkja að mjög alvarlegum hlut. Í fjárlagagerðinni fyrir árið 2014 var lagt fram fjárlagafrumvarp. Þar var gerð aðhaldskrafa á allar stofnanir ríkisins meira og minna, eins og gengur var aðhaldskrafan mismunandi og með ýmsu móti en gerð var aðhaldskrafa á allar aðalskrifstofur ráðuneytanna. Það er algerlega eðlilegt þegar gerð er slík krafa að aðalskrifstofurnar taki á sig sinn skerf. En hvað gerðist svo á milli umræðna? Það kom viðbótarniðurskurðarkrafa upp á 5%. Það er fáheyrt ef ekki einsdæmi, herra forseti. Þetta var geðþóttaákvörðun og til hvers var þetta gert? Þetta var gert til þess að gefa stjórnsýslunni skýr skilaboð um að ef fjárveitingavaldinu mislíkaði eitthvað mundi það ekki hika við að beita refsivendi fjárveitingavaldsins. Það voru skilaboð til stjórnsýslunnar um að þar skyldi fólk halda sig á mottunni. Fjárveitingavaldinu yrði óspart beitt ef á þyrfti að halda. Ef skera á niður í Stjórnarráði Íslands, sem er algerlega eðlilegt við ýmsar kringumstæður, á að gera það í fjárlagafrumvarpi en ekki í poti á milli umræðna.

Hvað gerðist í kjölfar þess að Stjórnarráð Íslands var minnkað um 1/20 án nokkurs rökstuðnings? Jú, auðvitað var fólki sagt upp. Fjölda fólks var sagt upp í stjórnsýslunni án þess að við vissum af hverju þetta var gert með þessum hætti og að sjálfsögðu veikti það stjórnsýsluna. Ég vil lýsa yfir eindreginni andstöðu við þessar breytingar en jafnframt lýsa yfir stuðningi við það ef menn og konur vilja styrkja stjórnsýsluna sem eðlilegt er og nauðsynlegt þá sé það gert með auknum fjármunum í þau verkefni sem þegar eru í ráðuneytunum en ekki með því að búa til einhverjar „míni“-stofnanir inni í ráðuneytunum til að setja einhverja nýja stjórnendur yfir.

Ég ætla þá að ljúka máli mínu á einmitt starfsmannamálunum því hér er verið að ganga á svig við lög um opinbera starfsmenn og þar af leiðandi er náttúrlega verið að breyta þeim. Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands er ákvæði sem ég veit ekki hvort var nýmæli í núgildandi lögum, ég hef ekki náð að kynna mér það, um að heimilt sé að flytja starfsmenn á milli ráðuneyta sem eru ótímabundið ráðnir, hafa sem sagt verið ráðnir inn með auglýsingu. Það er heimilt að flytja þá á milli ráðuneyta liggi fyrir samþykki beggja ráðherra fyrir flutningnum og starfsmannsins sjálfs. Þetta var gert til að auka möguleika fólks innan stjórnsýslunnar til að vinna sig áfram í starfi, fá fjölbreyttari reynslu og halda í mannauðinn sem búið væri að þjálfa upp því að það tekur tíma að verða góður embættismaður og það er dýrmætur mannauður. En ég áttaði mig ekki á því að með þessari breytingu nú ætti að ganga svona ansi langt, ég var bara að átta mig á því. Nú er kveðið á um það að ekki sé bara heimilt að flytja starfsfólk milli ráðuneyta heldur milli stjórnvalda, samþykki viðkomandi forstöðumaður flutninginn og starfsmaðurinn sjálfur. Þannig að ef það losnar núna starf í ráðuneyti getur ráðherra ákveðið og starfsmaður sem vinnur hjá einhverju opinberu stjórnvaldi, að hann fari í það starf án auglýsingar.

Ef ég hef tíma til að fara í aðra ræðu þá mun ég fara ítarlega yfir það sem BHM hefur um svona apa- og slönguleik að segja, en ég held að það sé fullljóst að ég styð ekki frumvarpið og vona að (Forseti hringir.) megnið af tillögunum verði felldar út og þær sem verði notaðar verði lagfærðar.