144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við höfum rætt töluvert akkúrat þær víðtæku heimildir sem ráðherra fær verði frumvarpið að lögum. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég vona að það verði ekki að veruleika að hægt verði einhendis að flytja stofnanir, hverjar svo sem þær eru og hvert svo sem ráðherranum mundi hugnast að flytja þær.

Mig langar að spyrja af því tilefni hv. þingmann hvort hún teldi að það mundi breyta einhverju ef settar yrðu reglur samhliða þessum lögum um það hvernig á að standa að slíkum breytingum, undirbúningnum og því sem lýtur að starfsfólki, faglegum störfum stofnunar og öllu svoleiðis. Mundi það að mati þingmannsins skipta einhverju máli varðandi þessa heimild til handa ráðherra ef settar væru niður alveg konkret reglur og þær kynntar hér samhliða?

Eins og ég segi hallast ég að því að það sé ekki gott að lögfesta aðsetur stofnana eða aðalstöðvar þeirra, heldur fái það bara umfjöllun hér. Eins og ég sagði einmitt í ræðu minni áðan gætum við fjallað um og fengið álit fleira fólks sem hefur með þessi málefni að gera. Ég spyr því hv. þingmann hvort hún telji að þetta mundi breyta einhverju.