144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég alveg hægt að halda utan um stjórnsýsluna án þess að hver einasta stofnun sé með lögfesta staðsetningu. Ég tek hins vegar undir, og sagði það áðan, að mér finnst eðlilegt þegar verið er að flytja einhverjar grunnþjónustustofnanir, sem gegna veigamiklu hlutverki eins og hv. þingmaður sagði, fari það í gegnum Alþingi. Síðan erum við með margvíslegar annars konar stjórnsýslustofnanir sem ég held að þurfi ekkert endilega að fá lögformlega staðsetningu og geti eðli málsins vegna verið hvar sem er. Það þarf kannski að vera einhvers konar sveigjanleiki. Mér finnst aðdragandinn að því þurfa að vera afskaplega skýr. Sé það ekki til staðar verður það að fara í gegnum það ferli sem við höfum rætt og þingið kemur að.

Ég tek undir með hv. þingmanni um hvort eitthvað sé að marka þetta. Ráðherrar allra ráðuneyta hafa svarað hv. þm. Birni Val Gíslasyni, eins og ég gat um áðan, um að ekki standi til að flytja neinar stofnanir. Í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði varðandi norðvesturnefndina fer þetta ekki alveg saman þar sem forsætisráðherra virtist hafa verið til í tuskið en fjármálaráðherra síður.

Mig langar að koma að öðru í restina og það varðar siðareglur, skráningu og upplýsingaskyldu. Er þingmaðurinn mér sammála um að það eigi að gilda sambærilegt á milli starfsmanna ráðuneytis, samanber að við höfum núna fengið niðurstöður frá umboðsmanni, um skráningu á samtölum og öðru slíku (Forseti hringir.) sem virðist eiga að draga úr í þessu frumvarpi en það á að skrá öll samskipti hins vegar við fólk úti í bæ?