144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst aðeins um reglur um flutning stofnana. Ég ætla að lýsa því yfir aftur að ég tel eindregið að löggjafinn eigi að hafa þetta ákvörðunarvald. Eins og kom fram var skilningur Hæstaréttar sá að væri staðsetur ekki tekið fram í lögum sérstaklega gilti Reykjavík sem höfuðborg. Löggjafinn getur líka sagt í lögum að staðsetning stofnunarinnar skuli ekki ákvörðuð með lögum heldur skuli „tekið mið af“. Við getum líka ákveðið að veita þá heimild, en það er ekki gott að ákvarðanir sem geta varðað mjög mikla hagsmuni séu teknar og enginn viti alveg af hverju.

Þegar ástæða er til að flytja stofnun þarf að koma góður rökstuðningur. Við erum núna með í velferðarnefnd sameiningu þjónustustofnana fyrir fatlað fólk. Þar skortir algjörlega á almennilegan rökstuðning og trúverðugar áætlanir um hvernig stofnunin eigi að virka, mjög mikilvæg stofnun. Þarna er staðsetningin ekki vandamálið, heldur megininntak stofnunarinnar sjálfrar. Að sjálfsögðu þurfum við að vita af hverju verið er að færa stofnanir eða sameina þær. Það þarf að vera af góðum og gildum ástæðum.

Varðandi siðareglurnar er náttúrlega mjög mikilvægt í stjórnsýslunni að samskipti milli starfsmanna sem varða ákveðin mál séu skráð og dokúmenteruð. Það á að vera þannig í málaskrám ráðuneytanna. Hið sama gildir um símtöl sem varða ákvarðanatöku eða hafa áhrif á ákvarðanatöku í (Forseti hringir.) einstaka málum.