144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það mál sem er hér til umræðu er nokkuð umdeilt sem sést ágætlega á því að mjög margir þingmenn vilja taka til máls um það. Það er ekki nýtt af nálinni. Þegar lögin um Stjórnarráð Íslands voru samþykkt 2011 voru hér umræður í að mig minnir upp undir tíu daga, ef ég man rétt í september, þar sem þingmönnum var mjög heitt í hamsi um ýmislegt varðandi Stjórnarráð Íslands. Þetta er mál sem margir láta sig varða og skiptir miklu.

Mér finnst margt í frumvarpinu ágætt og vel ígrundað og bera þess vott að að baki liggi einlægur vilji til þess að bæta lagaumgjörð Stjórnarráðs Íslands og reyna af fenginni reynslu að stoppa upp í einhver göt sem reynslan hefur leitt í ljós. Hins vegar eru greinar í frumvarpinu sem eru algjörlega einhvern veginn stílbrot á þessari ásjónu. Sama hvað manni finnst er ágætlega rökstutt í þessu frumvarpi af hverju það ætti að vera hægt að búa til einhvers konar ráðuneytisstofnanir eða starfseiningar innan ráðuneytanna, það er ágætlega rökstutt og var hluti af umræðunni 2011 af hverju ætti að vera hægt að hafa meiri sveigjanleika í Stjórnarráðinu og flytja til starfsmenn og það er útskýrt. En svo er 1. gr. Það er eins og henni hafi verið fleygt inn í frumvarpið:

„Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“

Þessi grein er ákaflega illa rökstudd í frumvarpinu. Rökstuðningurinn er mjög öfugsnúinn. Það er sagt að þetta hafi verið fellt út úr lögunum 2011 og að þess vegna eigi að setja þetta aftur inn. Sínum augum lítur hver silfrið, en ég mundi segja að það væri frekar rökstuðningur með því að hafa það ekki í lögunum að þetta var einmitt fellt út úr lögunum eftir þrjár umræður á þingi 2011. Það að eitthvað hafi verið fellt úr lögum er frekar rökstuðningur með því að það eigi ekki að vera í lögum. Ef við ætlum að fara að setja aftur í lög allt sem hefur verið fellt úr lögum veit ég ekki alveg hvar við endum. Mér finnst þetta ákaflega furðuleg röksemdafærsla fyrir því að 1. gr. eigi að vera þarna. Hún verður auðvitað að vera studd einhverjum efnisrökum. Af hverju er þetta mikilvægt? Af hverju þarf ráðherra að ákveða hvar stofnanir eiga að vera? Hvernig er það gott fyrir Ísland? Hvernig er það gott fyrir Stjórnarráðið? Hvernig er það gott út frá öllum mælikvarða um faglega stjórnsýslu? Hver eru rökin? Er þetta bara af því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra lýstu því yfir munnlega á fundi að þeir vildu flytja Fiskistofu og áttuðu sig á því að þeir höfðu ekki lagaheimild til þess? Er þetta út af því? Er það málefnaleg ástæða? Það getur auðvitað ekki verið þannig.

Viðvörunarbjöllurnar fóru strax að hringja í þessu máli fyrir jól þegar fregnir bárust af því að á leiðinni væri frumvarp með þessari almennu heimild til ráðherra um að flytja stofnanir. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma fyrir jól hvort það stæði virkilega til að koma með svona opna heimild til ráðherra inn í þingið og lögfesta hana og ef svo væri hvort það mundu ekki örugglega fylgja þessu heimildarákvæði einhver lögfest skilyrði fyrir valdi ráðherranna, ef ráðherra mætti ákveða aðsetur stofnana væri í lögunum líka að hann þyrfti að horfa til ýmissa þátta í þessari ákvörðun sinni, t.d. réttinda starfsmanna. Það er augljóst, starfsmenn hafa skuldbundið sig og gert samning um að starfa á ákveðnum stað. Hvernig á að glíma við breytingar á öllu því starfsumhverfi starfsmannanna sem þeir hafa gengið út frá? Hver eru hagræðingarsjónarmiðin? Hvernig samrýmist þessi ákvörðun heildaráætlunum um að byggja upp störf á landsbyggðinni ef þetta er hluti af því.? Hver er faglegi ávinningurinn fyrir þetta tiltekna svið þjónustunnar? Fiskistofa er augljóst dæmi. Ákveðinni faglegri uppbyggingu innan þeirrar stofnunar er stefnt í voða með mjög óábyrgum flutningi til Akureyrar. Það þarf að gæta að sjálfstæði stofnananna. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra hvort ekki væru örugglega einhver svona ákvæði um skilyrði heimildarinnar. Svörin voru mjög óljós. Á forsætisráðherra mátti heyra að hann teldi mikilvægt að hafa svona skilyrði og svona hluti í huga, horfa til þeirra, jú, jú, hafa þau bak við eyrað, skrifa þau aftan á umslag eða setja gulan miða á vegg þegar svona ákvörðun væri tekin. En það nægir ekki. Þetta verður að vera allt saman lögfest. Það verður að vera einhver ferill. Það verða að vera málefnaleg skilyrði fyrir því að flytja til stofnun.

Ef við ætlum að færa lagasetningar í þá átt að við ætlum að færa ráðherrum opnar heimildir, af hverju förum við þá ekki lengra, ráðherra ákveði hvar vegir skuli liggja, hvar skólar skuli starfa, hvað skuli kennt í skólum? Af hverju ákveður ráðherra ekki bara fjárheimildirnar? Af hverju erum við að bögglast með það inn í þingið? Af hverju höldum við ekki bara áfram, af hverju ákveður ráðherra ekki skattlagningarprósentuna? Er það ekki bara eitthvert tæknilegt mál á flestum sviðum?

Hver er málefnalega ástæðan fyrir því að hér eigi ráðherra allt í einu að fara að ráða því hvar stofnanir eru staðsettar algjörlega burt séð frá öllum skilyrðum sem ætla mætti að þyrfti að leggja til grundvallar slíkum ákvörðunum? Og hver er besta leiðin til að ræða svona mál? Er það ekki á Alþingi? Það er ekki að ástæðulausu sem þetta opna heimildarákvæði var fellt út úr lögunum árið 2011. Það er vegna þess að hér hafði verið skrifuð yfirgripsmikil skýrsla um ofríki ráðherra gagnvart Alþingi. Það var talið skynsamlegt að færa meira vald til Alþingis. BHM hefur meðal annars tekið undir þau sjónarmið að Alþingi fjallaði um svona ákvarðanir. Það mætti til dæmis skrifa inn í lögin. Ég vil beina því til nefndarinnar að hún skrifi inn skilyrði, skrifi inn í þetta frumvarp og væntanleg lög einhvern feril sem þarf að liggja til grundvallar slíkri ákvörðun. Ég er ekkert endilega þeirrar skoðunar að það þurfi að setja í lög alltaf í öllum tilvikum hvar stofnun eigi að starfa, en tilfærsla stofnunarinnar þar sem þarf að gæta að öllum sjónarmiðum og öllum réttindum fólks og fjölskyldna — heimila, svo ég noti það orð, mönnum er það tamt — þarf að vera skrifuð inn. Það mætti ímynda sér að það væri sett í lögin að þegar ráðherra vill flytja til stofnanir — það kunna að vera mjög góðar ástæður til þess, það getur verið mjög góð hugmynd og hefur stundum verið það, ég vil halda því algjörlega til haga, það getur til dæmis verið að það sé mjög góð hugmynd að Fiskistofa sé á Akureyri en það verður að flytja hana með öðrum hætti, gera það faglega og gæta að réttindum starfsmanna. Ef við viljum lögfesta svoleiðis feril geta menn til dæmis sett inn í lögin að ráðherra beri að leggja fram þingsályktunartillögu um flutning stofnunar og honum beri þar að taka tillit til a-b-c-d-e-þátta í sínum rökstuðningi fyrir flutningnum. Væri það ekki eitthvað? Hvað væri rangt við það? Væru ekki af augljósum og málefnalegum ástæðum valdi ráðherrans settar skorður og þetta bæri að ræða hér?

Ein áleitin spurning í þessu er: Er réttur ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana meiri en réttur starfsmanns til að vita hvar hann á að starfa í nánustu framtíð? Hvaða rétt hefur ráðherrann í þessu? Mér finnst þetta ótrúlega mikið „ég á þetta, ég má þetta“-hugmynd um vald, ótrúlega frekjuleg nálgun á vald. Þetta er skrifað út frá hugmynd um rétt ráðherra til að ákveða einhverja hluti. Hvaða rétt hefur hann? Við ættum þá til dæmis ekki að vera bundin því að hann hafi sagt frá þessum fyrirætlunum sínum einhvern tímann. Það er ekki einu sinni farið fram á það í þessu frumvarpi að ráðherrann rökstyðji ákvörðun sína. Honum er fært fullkomið gerræði hvað þetta varðar. Alveg burt séð frá því hvort það er góð hugmynd að færa störf út á land, sem það kann að vera, er svona lagagrein algjört stílbrot og frávik frá öllu því sem við erum að gera varðandi lagasetningu hér á landi og höfum verið að gera. Ég trúi því ekki að þetta fari svona í gegn.

Tökum samanburð hérna. Ég segi að þessari grein hljóti að hafa verið fleygt inn í þetta frumvarp algjörlega án mikillar umræðu, svona svipað og að menn ætli sér í framtíðinni að færa til stofnanir án mikillar umræðu. Tilkoma greinarinnar inn í þetta frumvarp er lýsandi dæmi um það hvernig menn vilja örugglega hafa stjórnsýsluna í framtíðinni meira og minna án umræðu og rökstuðnings.

En skoðum b-lið 10. gr.:

„Heimilt er, án þess að starf sé auglýst laust til umsóknar, að ákveða að starfsmaður sem er ráðinn ótímabundið til starfa flytjist um afmarkaðan tíma eða varanlega milli stjórnvalda …“

Þetta ákvæði er um sveigjanleika í starfsemi Stjórnarráðsins. Ég er skotinn í því. Ég mundi segja að það þyrfti auknar heimildir til að geta fært starfsmenn til en lesum aðeins lengra:

„… enda liggi fyrir samþykki viðkomandi forstöðumanns fyrir flutningnum og starfsmannsins sjálfs.“

Þetta er málefnalegt og skiljanlegt. Starfsmaðurinn er búinn að ráða sig inn í eitthvert ákveðið starf, búinn að gera um það ráðningarsamning og auðvitað getur enginn bara flutt hann til án þess að spyrja hann. Hann verður að samþykkja. Forstöðumaðurinn verður að samþykkja líka. Hann er kannski búinn að ganga út frá því að hafa þennan góða starfsmann í starfi. Þetta er málefnalegt. Þetta finnst mér skynsamlegt. Það er bundið ákveðnum skilyrðum hvernig á að flytja starfsmenn milli stofnana. Þess vegna er svo ótrúlegt stílbrot á frumvarpinu að þegar það á að flytja til heilar stofnanir milli landshluta þurfi ekki að spyrja neinn. Það þarf ekki að spyrja þingið. Það þarf ekki að spyrja starfsmennina. Það þarf ekki að spyrja forstöðumanninn. Það þarf ekki að rökstyðja það. Það þarf ekki að sýna fram á að það sé gott, faglegt, spari peninga eða skapi betri þjónustu. Ráðherra getur bara gert þetta þegar honum sýnist.

Mér finnst beinlínis alvarlegt að menn komi með svona grein inn í þingið og láti sér detta í hug að þetta sé boðleg hugmynd um ráðherravald, að það sé boðlegt að leggja svona fram og rökstyðja það ekki einu sinni.

Hvaða þýðingu getur þetta haft? Af hverju voru skrifaðar skýrslur um að það þyrfti að dempa völd ráðherra og koma á meira jafnvægi milli þings og framkvæmdarvaldsins í eftirleik hrunsins? Það var einn lærdómurinn sem menn drógu af þessum árum fyrir hrun. Menn vilja gegnsæi. Menn vilja réttlæti. Menn vilja minnka yfirgang í þessu samfélagi. Menn vilja ekki skapa skilyrði fyrir spillingu og ýmiss konar kúgun. Hvað er svona opið heimildarákvæði um að færa stofnun til? Við höfum séð í íslensku samfélagi hvernig einhverjar stofnanir hafi verið lagðar niður bara með orðum ráðherra vegna þess að stofnanirnar hafa ekki gengið í takt við stjórnarstefnuna. Það hefur gerst á Íslandi. Ég trúi að við viljum ekki svoleiðis samfélag. Við viljum ekki samfélag þar sem ráðherra getur hótað því að ef stofnun er ekki stillt og starfsmenn hennar verði hún bara flutt út í hafsauga án rökstuðnings. Um það snýst þetta mál í mínum huga, að berjast gegn ofríki og misbeitingu á valdi.