144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið, en ég hef enn þá efasemdir um að siðareglur séu endilega gott tæki til þess að valda því að ráðherrar fari eftir einhverjum ákveðnum reglum, eða öllu heldur: Ég velti fyrir mér hvernig siðareglurnar sem nú eru í gildi hefðu farið með lekamálið ef þær hefðu verið í fullu gildi og þeim hefði verið framfylgt af einhverjum óháðum aðila eða túlkaðar af umboðsmanni Alþingis. Ég sé ekki að það væri neitt annað en svokölluð pólitísk ábyrgð þar. Og með hliðsjón af því hvernig farið hefur verið með pólitíska ábyrgð í lekamálinu fæ ég ekki séð að eftirköstin hefðu verið mikil ef nokkur, ef ég á að segja alveg eins og er. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort ekki sé mikilvægara að hafa reglurnar í formi reglna þannig að hægt sé að bregðast við með afdráttarlausari hætti en að segja: Skamm, vondi pólitíkus, vegna þess að það er mjög greinilegt ef maður lítur á lekamálið að það hefur nákvæmlega ekkert að segja, alla vega ekki fyrr en í bláendann þegar ekkert annað er í stöðunni. Jafnvel þá er alltaf einhvers konar afneitun, skringileg afneitun sem einkennir íslensk stjórnmál almennt. Þess vegna langar mig að ganga harðar gagnvart stjórnmálamönnum, alþingismönnum, þegar kemur að siðareglum og setja einfaldlega reglur sem gilda. Ég hef reyndar áhyggjur af því að vegna þess að siðareglur heita siðareglur til þess að hægt sé að hafa eitthvað í þeim sem ekki er hægt að hafa beint í reglum, komi upp ýmis túlkunaratriði og að túlkunin sjálf verði pólitísk, þ.e. að afleiðingarnar af túlkuninni verði ekki bara pólitískar heldur líka túlkunin sjálf. Ég hef svolitlar áhyggjur af því.

En þetta er áhugaverð umræða og ég þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á þetta því að það er mikilvægt að við höfum eitthvað til hliðsjónar þegar við skoðum það hvernig við ætlum að hafa reglur, hvort sem er fyrir þingmenn eða hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) En ég velti fyrir mér: Væri (Forseti hringir.) hv. þingmaður reiðubúin til þess að skoða að breyta þessu í reglu?