144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:47]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þetta er mjög gagnleg og góð spurning og upplagt að velta henni fyrir sér vegna þess að auðvitað þurfum við að hafa siðareglur sem geta átt við hvaða aðstæður sem er. Ég held að það sé líka upplagt fyrir stjórnskipunarnefnd að velta þessari spurningu fyrir sér og hvort þetta atriði þurfi kannski líka að koma inn í frumvarpið. Það er mjög gott að velta því fyrir sér á þeim vettvangi.

Mig langar að bæta því við, af því að hv. þingmaður minntist á lekamálið og við vorum aðeins að ræða það hér, að að mínu mati, og ég tel að fleiri deili því mati með mér, hefðu það verið faglegri viðbrögð af hálfu forsætisráðherra að hafa starfandi samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið til þess að geta leitað sjálfur til þeirrar nefndar og fá álit hennar um viðbrögð við lekamálinu, en að ganga sjálfur fram fyrir skjöldu, fara í fjölmiðla og verja þáverandi innanríkisráðherra í staðinn fyrir að halla sér aðeins aftur og leita aðstoðar þessara sérfræðinga, þessarar sjö manna nefndar og biðja hana um álit á stöðunni sem upp væri komin. Þá gæti hann skýlt sér bak við það að hafa leitað aðstoðar og ráðlegginga hjá slíkri nefnd, sem er að mínu viti fullkomlega skiljanleg og miklu betri stjórnsýsla og ákvörðunartaka en að vaða sjálfur fram og verja þáverandi ráðherra.