144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:55]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að taka fram hvað við erum að ræða, það er náttúrlega frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég fór að hafa verulegan áhuga á stjórnmálum þegar hrunið mikla varð. Ég var þá í háskólanum og fór að velta því fyrir mér, eins og svo margir: Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að heilt samfélag hrynur svona? Þá fór maður að velta fyrir sér störfum framkvæmdarvaldsins og velti því fyrir sér á hverjum einasta degi hvernig svona gat gerst.

Það var farið í að vinna að rannsóknarskýrslu Alþingis, sem er mikið verk upp á fleiri, fleiri bindi. Með því að lesa og hlusta á umræður um þá skýrslu var ljóst að það var allt sem klikkaði í íslensku samfélagi; framkvæmdarvaldið, fjármálastofnanir, Alþingi. Hlutverk Alþingis var ekki nógu mikið og gott og aðhaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu var ekkert. Það voru ýmsir lærdómar og ályktanir dregnar af þessu sem vakti með mér meiri áhuga á stjórnmálum en ég hafði áður haft. Mig langaði að taka þátt, taka þátt í að reyna að breyta og búa til betra samfélag þar sem allir ynnu saman. Það er kannski langsótt og við í Bjartri framtíð höfum fengið á okkur ýmis skot fyrir það að vilja að allir í skóginum séu vinir, sem er náttúrlega fáránlegt og einhverjir aðrir búa til en við. Við hljótum að geta búið til samfélag þar sem allir starfa af meiri samheldni og samhug.

Ég hef í mörgum ræðum á Alþingi hvatt ríkisstjórnina til þess að eiga í enn þá meira samráði við alla í landinu, meira samráði við Alþingi, alþingismenn, og ekki síst stjórnarandstöðuna eða minnihlutaflokkana, sveitarfélög, fræðasamfélagið og alls kyns samtök í samfélaginu. Aldrei hefur verið hlustað á það, sem er svo sem ekkert nýtt. Síðan kemur þetta frumvarp hérna fram og ég velti aðallega fyrir mér 1. gr.: Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum. Hann ákveður það einn og sér. Maður hrekkur svolítið í kút yfir því. Hvað er að gerast?

Eitt af því sem kom fram að hefði verið mjög ábótavant og slæmt fyrir stjórnsýslu Íslands var það mikla ráðherraræði sem var. Það er hægt að lesa viðtöl við fyrrverandi ráðherra þar sem þeir segja að foringjaræðið og ráðherraræðið hafi verið algjört og allt of mikið. Mig langar að vitna í rannsóknarskýrslu Alþingis, bls. 180 í 8. bindi, þar stendur, með leyfi forseta:

„Mikið ráðherraræði eykur líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum sem efla vald viðkomandi stjórnmálamanns. Þetta helst gjarnan í hendur við þrönga sýn á lýðræðið sem felst í því að stjórnmálamenn beri verk sín reglulega undir dóm kjósenda og þess á milli eigi þeir að hafa frjálsar hendur um það hvernig þeir fara með völd sín, svo lengi sem þeir halda sig innan ramma laganna. Þetta er afar þröng sýn á lýðræðislegt lögmæti stjórnarhátta. Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri sátt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils.“

Þær breytingar sem áttu sér stað á Stjórnarráðinu árið 2011 miðuðu að því að reyna að minnka ráðherraræðið og gera þinginu kleift að rækja umræðuhlutverk sitt betur.

Á bls. 184 í sama bindi er talað um ályktanir og lærdóma. Með leyfi forseta langar mig líka til að vitna í það:

„Íslensk stjórnmálamenning er vanþroskuð og einkennist af miklu valdi ráðherra og oddvita stjórnarflokkanna. Þingið rækir illa umræðuhlutverk sitt vegna ofuráherslu á kappræðu þar sem þekking og rökræður víkja fyrir hernaðarlist og valdaklækjum. Þingið er líka illa í stakk búið til þess að rækja eftirlitshlutverk sitt, meðal annars vegna ofríkis meiri hlutans og framkvæmdarvaldsins, sem og skorts á faglegu baklandi fyrir þingið. Skortur á fagmennsku og vantrú á fræðilegum röksemdum er mein í íslenskum stjórnmálum. Andvaraleysi hefur verið ríkjandi gagnvart því í íslensku samfélagi hvernig vald í krafti auðs hefur safnast á fárra hendur og ógnað lýðræðislegum stjórnarháttum.“

Síðan er bent á ýmsa lærdóma sem við getum dregið af þessu, t.d. að draga úr ráðherraræði og styrkja eftirlitshlutverk Alþingis. Mér finnst þetta frumvarp ekki í þá áttina heldur er þvert á móti verið að gefa ráðherra vald til að færa heila stofnun hvert sem honum hentar og hvert sem honum sýnist án þess að tala við kóng eða prest og hvað þá þingið. Mér finnst þetta, eins og hefur komið fram í mörgum mjög góðum ræðum hv. þingmanna, vera eitthvað sem við viljum ekki. Í raun finnst manni þetta alveg ótrúlegt þótt það komi manni ekki óvart vegna þess sem gerðist síðasta sumar þegar allt í einu kom fram í fjölmiðlum að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra hefðu ákveðið að flytja Fiskistofu til Akureyrar.

Nú ætla ég ekki að segja að það sé slæmt að flytja Fiskistofu til Akureyrar, ég get alveg tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa sagt að það sé kannski ekkert slæmt, en eins og komið hefur fram í mörgum ræðum er þetta spurning um aðferðafræðina. Er boðlegt að tilkynna starfsmönnum stofnunar að það eigi að flytja hana með manni og mús 400 km norður í land, það sé svo gott að búa þar? Það voru ein rökin, að það væri svo gott að búa þarna, þar væri gott veður á sumrin.

Ég velti því fyrir mér hvernig það væri ef ég yrði einhvern tíma ráðherra, kannski í næstu ríkisstjórn þótt það sé frekar ólíklegt, en segjum að ég yrði menntamálaráðherra. Nú kom til umræðu í dag að verið er að sameina tvær stofnanir, Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun. Segjum að ég yrði menntamálaráðherra í næstu ríkisstjórn og tæki upp á því og tilkynnti það í fjölmiðlum að ég ætlaði að færa þessa stofnun til Keflavíkur eða Reykjanesbæjar vegna þess að þar væri atvinnuástandið slæmt. Og mér fyndist það bara fínt því að það væri fínt að búa í Reykjanesbæ, þaðan væri stutt á flugvöllinn, stutt í Bláa lónið. Mér fyndist það ekki boðlegt og svona vinnubrögð eiginlega ekki heldur.

Í síðustu viku minntust sjálfstæðismenn Ólafs Thors heitins og 50 ára ártíðar hans. Það kom meðal annars fram í ræðu Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að Ólafur — og hann var merkur stjórnmálamaður, það leikur ekki nokkur vafi á því, örugglega einn af betri stjórnmálamönnum í sögu Íslands — hefði notaði mikið glettni og gleði til þess að fá menn til samstarfs við sig og til að vinna sameiginlega að einhverjum markmiðum. Ég vildi óska þess að þannig væri það í dag.

Ég rakst á grein þegar ég var að lesa um og velta því fyrir mér hvernig ég vil hafa íslenskt samfélag. Greinin er eftir Njörð P. Njarðvík, sem er virtur fræðimaður, skáld og mannvinur, sem hann skrifaði í Morgunblaðið 28. maí 1997. Þar fjallar hann um mannhelgi og vitnar í það að Ólafur Thors hafi haldið ræðu skömmu eftir stofnun lýðveldisins 1944 þar sem hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Kjörorð hins íslenska lýðveldis er mannhelgi.“

Síðan skýrir Njörður þetta mál og ég vitna í grein hans, með leyfi forseta:

„Orðið mannhelgi er skýrt svo sem það sé lögfræðilegt hugtak og merki „persónulegt öryggi staðfest með lögum“ (íslensk orðabók Menningarsjóðs). Nú er „persónulegt öryggi“ að vísu teygjanlegt hugtak“ — við höfum heyrt það áður, t.d. hjá þessari ríkisstjórn. — „og ekki víst að allir skilji það eins. En ég hygg þó að í hugum margra merki orðið „mannhelgi“ í raun meira en einbert lögfræðilegt hugtak segir til um, vegna síðari hluta orðsins er felur í sér í senn friðhelgi og heilagleika. Ég leyfi mér að minnsta kosti að skilja orð Ólafs svo, að grundvöllur hins íslenska lýðveldis eigi að vera mannúðarhugsjón, að í hinu nýfengna fullnaðarfrelsi þjóðarinnar felist tækifæri og raunar nauðsyn þess að skapa samfélag frjálsra manna er stefni að gróandi þjóðlífi með mannréttindi, samkennd og réttlæti að leiðarljósi. Slík framtíðarsýn felur í sér ósk og hugsjón. Og hugsjón gerir kröfu til hollustu og þjónustu. Því hlýtur að búa í þessum orðum Ólafs krafa um að þeir, sem veljast til forystu fyrir þjóðinni, þjóni þeirri hugsjón um mannhelgi, sem er kjörorð hins íslenska lýðveldis.“

Í greininni talar Njörður líka um það hvernig tekist hefur til. Hefur mannhelgi í raun verið kjörorð hins íslenska lýðveldis? Þar bendir hann á ýmislegt, eins og t.d. þegar útgerðarmönnum var afhentur fiskurinn í sjónum. Var mannhelgi þar á bak við? Hann nefnir það meira að segja sem mestu mistök í sögu stjórnmálanna á Íslandi.

Hann talar líka um umhverfismál og málefni aldraðra. Takið eftir að hann skrifaði greinina fyrir 17 árum. Ég velti mér: Er fólgin í því mannhelgi að einn ráðherra hafi vald til þess að færa til stofnun? Hvað er stofnun? Er hún aðeins borð, stólar og tölvur? Nei, hún er það ekki. Stofnun er fyrst og fremst starfsfólkið sem vinnur í henni og þekkingin sem er að baki, sem hún hefur aflað sér. Við getum tekið sem dæmi Fiskistofu, ætli hún sé ekki að verða um 20 ára gömul og þar hefur verið byggð upp gríðarlega þekking. Ég spyr: Er almannaheill á bak við þá ákvörðun? Hefur verið skoðað hvort þetta sé til heilla fyrir þjóðina? Er betra að hafa Fiskistofu á Akureyri? Er betra að hafa Námsgagnastofnun á Ísafirði? Það er endalaust hægt að velta þessum spurningum upp. Við megum aldrei gleyma því þegar við erum í stjórnmálum að við erum að vinna fyrir almenning í landinu og við verðum að hugsa málið til enda.

Nú hefur þessi ríkisstjórn mikið hampað hugtakinu „heimilin í landinu“. Hún var raunar kosin út á „heimilin í landinu“. Er það gott fyrir heimili 70 starfsmanna Fiskistofu að henni sé kippt upp með rótum og hún flutt norður á Akureyri? Hvað með börnin? Er verið að horfa til réttinda barna í því tilfelli, sem eru í skólum og eiga félaga? Við gerum allt of lítið af því að velta þessu fyrir okkur. Við getum endalaust velt fyrir okkur hversu tæknilegs eðlis það er að hafa stofnanir hér eða þar, en við megum aldrei gleyma því að bak við allar stofnanir er fólk af holdi og blóði, fólk sem hefur mikla reynslu og þekkingu sem getur glatast. Ég velti einnig fyrir mér varðandi Fiskistofu, fyrst við erum farin að tala um hana, að nú stendur til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og það á að fara að leggja nýtt frumvarp fram. Á að hafa Fiskistofu í uppnámi þegar það er gert? Hvert er hlutverk Fiskistofu? Þar eru veitt ráð og ráðgjöf. Er boðlegt að þetta sé gert á þennan hátt og svo er stofnunin jafnvel í uppnámi þegar verið er að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu? Maður spyr sig.

Ég veit að það stóð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að færa ætti opinber störf út á land og að það væru byggðir sem ættu í erfiðleikum sem þyrfti að skoða og reyna að styrkja með því kannski að færa opinber störf þangað. Ég veit ekki til þess að Akureyri, með fullri virðingu þeim góða bæ, sé í sérstakri áhættu eða teljist brothætt byggð. Fyrir utan að það hefur komið fram í umræðum hv. þingmanna að störf hafi verið að færast frá Akureyri og Húsavík til dæmis, opinber störf, og á sama tíma á að færa þessa stofnun norður.

Við eigum ekki að gera þetta svona. Við eigum að læra af því sem hefur farið illa hjá okkur á síðustu árum. Það er margt sem orsakaði það að hér varð hrun. Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kom inn á siðferðið. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig alveg á því fyrr en hún nefndi það. Þetta var mjög góður punktur vegna þess að hér varð ekki aðeins efnahagshrun, hér varð líka siðferðilegt hrun. Það kom í ljós að fólk veltir hlutunum ekkert fyrir sér. Til hvers erum við hérna? Ég velti því oft fyrir mér. Ég hef lesið mér til og mitt hlutverk hérna er fyrst og fremst að gæta almannahags. Við eigum ekki að taka neinar ákvarðanir, engin frumvörp eða lög eða þingsályktunartillögur, nema það þjóni hagsmunum almennings í landinu, fyrst og fremst, og kannski sérstaklega þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Það er góð regla sem John Rolls benti á á sínum tíma.

Ég vona að þessu verði breytt í meðförum nefndarinnar og að komist verði að þeirri niðurstöðu að þetta gangi ekki. Þetta er ekki til þess fallið. Það er ekkert að því að færa stofnanir, það er allt í lagi í eðli sínu ef það eru fyrir því góð rök, en þá er það rætt á Alþingi og ákvörðun tekin af fulltrúum allra, ekki þannig að einn ráðherra hafi með það að gera að flytja stofnanir með manni og mús hvert sem er ef það hentar honum. Þetta lyktar svolítið af kjördæmapoti, Fiskistofuflutningurinn, og þannig viljum við ekki hafa hlutina. Við viljum byggja upp heilbrigt og gott samfélag þar sem menn vinna saman að heill og hamingju þessarar þjóðar. Mér finnst þetta frumvarp ekki vera í þá átt.