144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:12]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef ekki heyrt að ekki ætti að flytja neinar stofnanir út á land og get því miður ekki svarað því. Mér finnst þetta dálítið skrýtið þegar maður fer að velta þessu fyrir sér, af hverju kemur þetta í kjölfarið? Það hefur komið fram í ræðum áður, til dæmis hjá formanni mínum, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, að það er eins og þessari 1. gr. hafi verið hent inn í þetta frumvarp og kannski kemur hún í kjölfarið á því að flytja átti Fiskistofu. Allt í einu áttuðu þeir sig á því að þeir gátu það ekki og ekki síst í ljósi þeirra gríðarlegu mótmæla sem urðu í kjölfarið. En ég get ekki svarað því af hverju þetta er gert svona.

Hv. þingmaður talaði líka um leka. Það er alltaf verið að ræða þetta með leka. Þetta er höfuðborgin okkar og helsta svæði stjórnsýslunnar og ekkert óeðlilegt að í höfuðborg sé miðstöð stjórnsýslu og annað fram eftir götunum. Þetta er ekki bara hér á Íslandi, þetta er alls staðar, borgarmenningin og borgirnar hafa verið að byggjast upp á síðustu 100 árum. Það þýðir að störfum fækkar úti á landsbyggðinni. Það er atriði sem við getum tekið til og farið að skoða meira hvers vegna í ósköpunum þetta ástand á Íslandi er svona slæmt, af hverju okkur hefur ekki tekist að byggja upp önnur störf úti á landi, þar sem störfin byggjast bara á landbúnaði og sjávarútvegi. Það er kannski framtíðarmál sem við þurfum að taka fyrir og ræða, hvernig við getum byggt upp öflugra og fjölbreyttara atvinnulíf úti á landi.