144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu þar sem hann kom víða við í tengslum við þetta mál.

Eitt af því sem hann nefndi var sú sérstaka staða að þessari grein sé skeytt inn í frumvarpið sem veitir öllum ráðherrum jafn víðtæka heimild og raun ber vitni til að ákveða án nokkurra takmarkana staðsetningu allra stofnana sem undir þá heyra á hverjum tíma. Ég vildi í ljósi þess sem hv. þingmaður rakti með tilliti til starfsmanna og annars slíks, velta því upp; finnst honum eðlilegt að aðferðin sem valin er sé svona víðtæk?

Ég hef þá kenningu að ef menn hefðu bara kosið að setjast yfir það að flytja Fiskistofu vegna efnislegra raka sem væru fyrir því að flytja starfsemi hennar út á land hefðu menn örugglega getað náð einhverri samstöðu um það og gert það á einhverju árabili. En almennt ákvæði eins og þetta er í sjálfu sér þannig að það er ekki á vísan að róa fyrir Akureyringa að treysta því að Fiskistofa verði þar þó svo að hún verði flutt þangað því að næsti ráðherra getur bara flutt hana aftur. Og eins og ég hef ekki þreyst á að minna á þá er Fiskistofa í Hafnarfirði núna vegna þess að síðasti ráðherra var úr Hafnarfirði og flutti hana þangað síðast þegar þessir flokkar voru saman í ríkisstjórn. Það er því ekki heldur neina línu að finna í afstöðu þessara flokka til þess hvort stofnanir eigi að vera á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Verið er að búa til eina allsherjarhringekju. Ég spyr hv. þingmann: Hvernig hefði honum litist á ef málið hefði borið að með öðrum hætti og verið rætt hér sérstaklega í samráði vegna þess að þurft hefði að breyta lögum — að flytja Fiskistofu til Akureyrar en gera það með einhverjum öðrum hætti?