144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér hefði fundist það mjög gott. Eins og ég hef áður sagt og sagði í ræðu minni áðan finnst mér alveg ótækt að einn ráðherra geti haft þá heimild að færa stofnun bara hvert sem er. Og nákvæmlega eins og hv. þingmaður rakti þá væri Fiskistofa flutt til Akureyrar og svo kæmi næsti ráðherra á eftir og færði hana eitthvað annað. Það er alveg ótrúlegt og ég held að ráðherravaldið hljóti þá að vera of mikið, ekki síst í ljósi þess sem fram kom í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Teknar yrðu gerræðislegar ákvarðanir eins og mönnum hentaði, alveg eins og í þessu tilfelli. Ég ætla ekki að væna hæstv. forsætisráðherra um að vera í einhverju kjördæmapoti en þetta er voðalega skrýtið, ekki síst í ljósi þess að á síðasta þingi, 143. þingi, lagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, hv. þingmaður Framsóknarflokksins, fram þingsályktunartillögu um að undirbúa flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin. Tillagan fékk ekki einu sinni umræðu í nefnd og samt vorum við flestallir þingmenn Suðurkjördæmis á tillögunni og einnig þingmenn úr öðrum kjördæmum. Þetta var ekki einu sinni til umræðu. Þess vegna kom það svo ótrúlega mikið á óvart að ráðherra ætti að ákveða það, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að færa Fiskistofu norður.

Við erum ekkert búin að læra, við höfum ekkert lært. Er það þetta sem við viljum sjá í íslenskri stjórnsýslu eftir allt sem á undan er gengið? Eins og hv. þingmaður nefndi áðan er ekkert að því að færa Fiskistofu norður. Það þarf bara að gera það í samráði við alla og ekki síst starfsmennina. Maður hefði haldið að fyrst og fremst ætti að gera það í samráði og góðri sátt við starfsmenn stofnunarinnar og svo Alþingis þar sem komist væri að niðurstöðu sem allir gætu sætt sig við.