144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er það svo að þessum lögum var síðast breytt 2011. Það var gert á grundvelli skýrslu sem bar heitið Samhent stjórnsýsla og var unnin af sérfræðingahópi. Sérfræðingar segja í inngangi að þeirri skýrslu að breytingarnar sem þeir leggja til að gerðar verði séu einmitt til að auka sveigjanleika á milli ráðuneyta og stofnana og tryggja að þekking og mannauður séu nýtt til fulls og að auka gegnsæi í vinnubrögðum. Markmiðið með þeim breytingum sem nú eru lagðar til eru einnig í þá veru að auka sveigjanleikann.

Hv. þingmaður nefndi að þarna væri verið að opna fyrir kjördæmapot og í slíkum tilgangi væru heilu stofnanirnar færðar til með slæmum afleiðingum, jafnvel fyrir fjölskyldur starfsmannanna og fjárhagslega hagi. En hv. þingmaður talaði svolítið varlega og vildi ekki fullyrða að flutningur Fiskistofu væri í þessum tilgangi. Ég leyfi mér að segja að þar sé einmitt kjördæmasjónarmið undir. Við hv. þingmaður erum bæði sammála því að flytja eigi Landhelgisgæsluna til Suðurnesja og við þykjumst færa fyrir því fagleg og fjárhagsleg rök, en það eru ekki allir sammála okkur. Ég vil spyrja hv. þingmann: Væri ekki bara gott að hafa svona sveigjanleika ef vera kynni að í sæti innanríkisráðherra mundi setjast Suðurnesjamaður og þá fengjum við fyrst ósk okkar uppfyllta?