144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni um þetta mál einskorðaði ég mig við umræðu um flutningsákvæðið í 1. gr. og vísaði til ræðu um aðra þætti þessa frumvarps sem ég vildi fara um örfáum orðum.

Ég er sammála breytingunni í 2. gr. og tel hana skynsamlega, að það séu fyrir henni efnisleg rök. Mér finnst breytingin í 6. gr. nokkurt umhugsunarefni, að búa til hugmynd um sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir sem séu starfræktar sem hluti af ráðuneyti. Mér finnst hugmyndin athyglisverð og kannski er þetta breyting til bóta sem getur gert það kleift að draga úr kostnaði við að stofna til stofnana, sjálfstæðra stofnana, þ.e. með því að hýsa þær innan ráðuneyta. En þetta er vandmeðfarið ef tryggja á sjálfstæði slíkra stofnana.

Ég er líka sammála öðrum sem hér hafa talað í umræðunni um að gagnrýna 8. gr. um alvald forsætisráðuneytisins við túlkun siðareglna. Siðfræðingar eru almennt þeirrar skoðunar að setning siðareglna sé tilgangslítil ef hún byggist ekki á skuldbindingu þeirra sem reglurnar eiga að gilda um. Ef ekki sé um það að ræða að almennir starfsmenn í Stjórnarráðinu komi að setningu reglnanna og skilji inntak þeirra þá sé það misskilningur á eðli siðareglna að halda að þær geti verið eins og boðorð sem menn eru lamdir í hausinn með, stafi frá einhverjum æðri máttarvöldum. Þess þá heldur er það nú ekki þannig að hæstv. forsætisráðherra hafi sýnt af sér sérstaka elju við að halda fram siðareglum eða siðferðislegum viðhorfum í álitamálum sem upp hafa komið í stjórnartíð hans heldur þvert á móti, eins og viðbrögð hans í lekamálinu fræga benda til, hann horfði í allar aðrar áttir en í þá átt sem hann bar sjálfur ábyrgð á.

Ég vil síðan gera að umtalsefni nýjan b-lið 10. gr. um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar er lagt til að útvíkka enn frekar heimild sem sett var í lögin árið 2011 um heimild til að flytja menn milli ráðuneyta innan Stjórnarráðsins og að þeir gætu flust með eigin samþykki milli ráðuneyta. Rakið er í greinargerð að sú breyting hafi tekist vel. Ég er sammála því. Þarna er opnað fyrir að gera þetta líka milli stofnana. Mér finnst það umhugsunarefni að fólk í ríkisstofnunum geti farið á milli ríkisstofnana eða frá ríkisstofnun til ráðuneytis.

Ég vara samt við að gera þessa víðtæku breytingu ef það er ekki í gadda slegið að með því sé ekki verið að opna almenna undanþágu frá auglýsingaskyldu. Við upplifðum það hér í haust að hæstv. þáverandi innanríkisráðherra auglýsti ekki stöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjóraembættis sem var með, þegar hún ákvað að setja í það handvalinn lögreglustjóra án auglýsingar, hana og embættisfærslur hennar og pólitískra aðstoðarmanna hennar til rannsóknar. Þetta var ekki gott og þetta var ekki gott fyrir tiltrú á embættið og ekki gott heldur fyrir tiltrú á þann lögreglustjóra sem starfið fékk sem er alls góðs maklegur. Það er ekki skynsamlegt að opna leiðir til að víkja með svona víðtækum hætti, á grundvelli afmarkaðra heimilda til tilflutnings í starfi, frá hinni almennu reglu um auglýsingaskyldu opinberra starfa, ég tala nú ekki um lykilstarfa, forustustarfa, í stofnunum.

Ég vil nefna þetta vegna þess að þessi heimild út af fyrir sig — ég get alveg skilið skynsemina á bak við hana, en hún getur orðið gríðarlega víðtæk ef hún er túlkuð umfram það þrönga gildissvið sem henni er ætlað í greinargerðinni. Og það eru engar hömlur við því orðalagi greinarinnar sjálfrar. Ég mundi vilja beina því til nefndarinnar að takmarka gildissviðið eða skýra það frekar.

Að síðustu ítreka ég það og fer fram á það við nefndina að hún fari vandlega yfir 1. gr. og komi í veg fyrir þær ógöngur að stofnanir séu viðvarandi í óvissu um framtíðarstaðsetningu sína. Það getur ekki verið neinum til góðs.