144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég hef áhyggjur af við ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar, og það á ekki bara við hæstv. forsætisráðherra, er að ráðherrar virðast ekki hafa einhvern veginn lært af mistökunum sem við gerðum hér fyrir hrun, þar sem við gerðum alls konar hluti sem sýndu að við vissum ekki hvað það þýddi að vera fámenn þjóð. Það að vera fámenn þjóð þýðir að við þurfum enn frekar á ráðum að halda, á formlegum ferlum að halda og agaðri stjórnsýslu. Það getur tekið lengri tíma. Kunningjasamfélagið býður upp á skjóta ákvörðunartöku en í leiðinni er hætta á að hún sé ekki yfirveguð.

Mönnum finnst það kannski ekki nógu töff eða spennandi að fara eftir ákveðnum ferlum og setja upp óháð ráð sem fjalla um málin frá mörgum hliðum og getur tekið langan tíma sem er í lagi ef ekki er verið að tjalda til einnar nætur. En allt sem miðar að því að gera stjórnsýsluna agaðri og gera hana sterkari í leiðinni, ég vil vinna að því marki. En þetta frumvarp með þeim breytingum sem það ber með sér er einmitt að fara í þveröfuga átt. Af því hef ég áhyggjur. Þess vegna vona ég að nefndin taki frumvarpið til alvarlegrar skoðunar og skoði það með athugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis.