144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er nú orðið til siðs að byrja á því að þakka fyrir umræðuna. Það var eitt og annað í þessari umræðu sem var tiltölulega áhugavert. Hún fór þokkalega af stað en breyttist reyndar fljótlega, að því er virðist, í umræðu um flutning Fiskistofu. En það er ekki það mál sem er til umræðu hér heldur frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég ætla engu að síður, bara í örfáum orðum ef virðulegur forseti gefur mér svigrúm til þess, að ræða flutning Fiskistofu fyrst menn hafa gert það að umræðuefni hér en ekki málið sem fyrir liggur.

Ég hef orðið þess var að í umræðunni hafa menn haldið fram ýmsu sem ekki stenst skoðun um það mál. Því er til að mynda haldið blákalt fram að það sé á einhvern hátt ófaglegt að starfrækja Fiskistofu á Akureyri. Það finnst mér ákaflega undarlegt og ekki hvað síst að heyra slíkt frá þingmönnum Norðausturkjördæmis. Á Akureyri er allt til alls til þess að geti Fiskistofa starfað þar og gert það mjög vel. Háskólinn á Akureyri er alllengi búinn að sérhæfa sig í fræðum sem munu gagnast þessari stofnun ákaflega vel. Jafnframt hefur því verið haldið fram að það sé algjörlega óásættanlegt að rífa stofnunina upp með rótum og flytja hana með manni og mús. Það stendur ekki til og hefur aldrei gert. Eins og kom fram strax í upphafi hefur ætlunin ávallt verið að vinna þetta í samráði við starfsmenn þarna þannig að þetta geti gengið sem best fyrir sig fyrir starfsmennina og fyrir stofnunina um leið. Er engin ástæða til annars en að ætla að þetta geti skilað sér í mjög öflugri Fiskistofu á Akureyri. Ég ætla að láta þetta nægja af umræðu um flutning Fiskistofu enda er það mál ekki á dagskrá hér heldur frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.

Þeir þingmenn sem mér sýnist ætla að stökkva hér upp til að halda áfram umræðu um flutning Fiskistofu gætu orðið fyrir vonbrigðum með framhaldið. Þó kann að vera að ég telji mig tilknúinn að leiðrétta rangfærslur ef fleiri bætast við. Ég náði að gleðja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur rétt eins og ég gladdi hv. þm. Árna Pál Árnason í gær, allt í einu er ég orðinn gleðigjafi hér í þinginu og þykir ekki leiðinlegt að geta stuðlað að aukinni gleði hér í þingsal.

Það er margt gleðilegt við þetta frumvarp. Það er til þess ætlað að gera lög um Stjórnarráðið enn betri, þ.e. tilgangurinn, eins og lýst er í frumvarpinu með þessum breytingum, er sá að ráða bót á þeim vanköntum sem orðið hefur vart við frá því lög um Stjórnarráð Íslands nr. 115 tóku gildi árið 2011. En eins og kannski við er að búast — og það er ekkert óeðlilegt við það, virðulegur forseti — þá verður þess vart hjá stjórnarandstöðu þegar um er að ræða lög um Stjórnarráðið, lög sem fjalla um starfshætti Stjórnarráðsins, að þar gætir tortryggni í garð stjórnvalda. Það var alveg eins árið 2011 þegar við vorum að ræða frumvarp þáverandi ríkisstjórnar um Stjórnarráðið. Ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna að við vorum mörg hver mjög tortryggin í garð þeirra breytinga sem þá voru kynntar vegna þess að við bárum lítið traust til þeirrar ríkisstjórnar sem var að innleiða þær breytingar. Engu að síður er hér verið að viðhalda í grófum dráttum þeim lögum sem þá voru samþykkt, en eingöngu að ráðast í nauðsynlegar úrbætur. Þær úrbætur virðast sumar hverjar hins vegar hafa misskilist og jafnvel er eins og sumir þeirra hv. þingmanna sem hafa tjáð sig um málið hafi ekki kynnt sér lögin eins og þau voru fyrir og telji að með ákvæðum breytinga sem eru til þess ætlaðar að ná enn betur fram tilgangi upprunalegu laganna sé á einhvern hátt verið að bakka þegar í raun er verið að sækja lengra fram í þá átt sem markmiðið var með upphaflegu lögunum.

Ég nefni dæmi. Það er umræðan sem varð hér um skráningu upplýsinga. Þar fóru menn að geta sér til um hvað stjórnvöldum gengi til eða ráðherranum með frumvarpinu og jafnvel að álykta sem svo að þetta hlyti að vera til þess ætlað að hægt væri að halda óeðlilega skrá um borgarana og athafnir þeirra. Það er auðvitað ekki svo eins og þeir sem unnu að frumvarpinu á sínum tíma þekkja. Hér er verið að halda áfram vinnu sem hefur staðið alveg frá því skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis birtist þar sem dregið var fram mikilvægi þess að aukin formfesta ríkti hjá stjórnvöldum og það væri mikilvægt til að verja rétt borgaranna að hlutir væru skráðir, þeir væru færðir til bókar, hvað stjórnvöld væru að aðhafast og hvernig brugðist væri við erindum. Svoleiðis að tilgangurinn með þessu er alls ekki sá að skrá upplýsingar sem ekki eiga að vera til staðar, alls ekki, augljóslega, að brjóta friðhelgi einkalífs fólks, heldur að tryggja enn betur það sem ávallt var ætlunin að tryggja með lögum um Stjórnarráð í framhaldi af ábendingum í rannsóknarskýrslu Alþingis um mikilvægi aukinnar formfestu í Stjórnarráðinu.

Menn hafa svo velt fyrir sér orðalagsbreytingum eins og þeim að tala um „mikilvæg samskipti“ í stað „formlegra samskipta“ þegar kemur að því að geta um samskipti í ríkisstjórn eða skrá þau. Hér er í raun verið að útvíkka þær skyldur sem lagðar eru á herðar ráðherrum frekar en að gera þeim auðveldara fyrir vegna þess að það getur verið mjög erfitt að meta hvað eigi að teljast formleg samskipti. Sumir hafa fært rök fyrir því að það sé svo erfitt og raunar ómögulegt að draga þar einhver mörk að hægt sé að flokka öll samskipti við stjórnvöld sem formleg samskipti, athugasemdir á Facebook-síðu þess vegna. Þar af leiðandi var óhjákvæmilegt að útskýra nánar við hvað væri átt, hvaða markmiði væri verið að ná hér, markmiðinu um það að öll mikilvæg samskipti, samskipti sem geta haft áhrif á ákvarðanatöku, forsendur ákvarðanatöku, eða ákvarðanirnar sjálfar sem stjórnvöld taka, séu færð til bókar.

Það hefur mikið verið rætt um hið svokallaða lekamál undanfarna daga. Til að setja þetta í samhengi má benda á að umrædd samskipti við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu gátu ekki talist formleg samskipti eins og kom fram í áliti umboðsmanns.

Hér er því í raun verið að leggja auknar byrðar á herðar stjórnmálamanna og ástæðulaust að tortryggja það.

Hvað varðar hins vegar þann möguleika að gera breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins þá hafa nokkrir þeirra hv. þingmanna sem hafa rætt þá hlið málsins haldið því fram að með því sé á einhvern hátt verið að skerða réttindi starfsmanna. Það er nú aldeilis ekki svo vegna þess að í frumvarpinu kemur fram að eigi að færa starfsmenn til í samræmi við þar að lútandi ákvæði þurfi í fyrsta lagi samþykki yfirmanns í því ráðuneyti eða þeirri stofnun þar sem viðkomandi er starfandi, það þarf samþykki þess sem á að taka við viðkomandi starfsmanni og mikilvægast af öllu þá þarf samþykki starfsmannsins sjálfs. Hér er því eingöngu verið að búa til möguleika fyrir starfsfólk í Stjórnarráðinu eða stofnunum sem undir það heyra til að færa sig til í starfi ef viðkomandi langar það sjálfan. Það er því mjög sérkennilegt að gagnrýna slíka möguleika, enda held ég að það sé óhætt að fullyrða að flestir opinberir starfsmenn vilji hafa slíkan möguleika. Ég held að það séu ekki margir opinberir starfsmenn sem þrá fyrst og fremst að vinna í stöðnuðu umhverfi og því er hér verið að koma Stjórnarráðinu og skipulagi þess og stofnana þess inn í 21. öldina og það gagnast ekki hvað síst starfsmönnunum sem fá tækifæri til að öðlast ólíka reynslu, vaxa í starfi, færa sig á milli, sinna nýjum hlutverkum sem þeim þykja jafnvel skemmtilegri en þau sem þeir voru í áður. Allt horfir þetta því til bóta, virðulegur forseti.

Í lokin ítreka ég það sem ég kom inn á í byrjun að hér er fyrst og fremst um að ræða lagfæringar í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á lög um Stjórnarráð Íslands. Það er meira að segja sérstaklega verið að lyfta vægi siðareglna miðað við það sem áður var, enda, svo ég vitni nú aftur í umboðsmann Alþingis, má líta svo á að einungis hafi verið til staðar heimildir til ríkisstjórnar til að setja sér siðareglur en ekki skylda, en hér er verið að leggja enn meiri skyldur á herðar forsætisráðuneytinu ekki hvað síst við það að halda utan um siðareglur í Stjórnarráðinu og lyfta mikilvægi þeirra. En jafnframt og rétt að hafa það hugfast, virðulegur forseti, er áfram ákvæði um að leita skuli til Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands enda þótt eðli siðareglna sé slíkt að menn setji sér þær sjálfir, að það séu reglurnar sem þeir vilji starfa eftir. Engu að síður er því viðhaldið að leita skuli álits Háskóla Íslands.