144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:51]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ótvírætt að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi, eins og hann hefur raunar útskýrt sjálfur, ávallt gert ráð fyrir að þessi flutningur færi fram yfir tíma og á þann hátt að það valdi sem minnstum vandræðum fyrir starfsmenn. Nú er enn þá í gangi vinna við útfærsluna á þessu með þátttöku starfsmanna, þannig að vilji ráðherrans hefur ávallt staðið til þess.

Hvað varðar hins vegar víðtækari skýringar eða hömlur sem verði lagðar til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um staðsetningu stofnana er auðvitað mjög mikilvægt að stjórnvöldum sé kleift að tryggja grundvallaratriði eins og ákveðna dreifingu opinberra starfa út um land. Til þessa hefur straumurinn allur, (Forseti hringir.) meira og minna, legið í eina átt án þess að það hafi orðið fréttaefni þegar tugir starfa og jafnvel mörg hundruð störf hafa flust af landsbyggðinni og til höfuðborgarsvæðisins.