144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma okkur hérna, að minnsta kosti stjórnarandstöðuþingmönnum Norðausturkjördæmis, til varnar. Ég held að ekkert okkar hafi tekið sérstaklega dæmi af Fiskistofu, þ.e. flutningnum til Akureyrar per se, sem einhverju neikvæðu heldur hafa allir sem hér hafa talað tjáð sig um aðferðafræðina. Um það snýst málið, aðferðafræðina. Það er það sem við erum helst að gagnrýna og þá með því fyrirkomulagi sem virðist felast í 1. gr. þessa lagafrumvarps.

Af því að til var skýrsla Eyþings um málefni Fiskistofu og fimm ára prósess í því þá langar mig að spyrja ráðherrann hvort sú skýrsla hafi eitthvað verið skoðuð, hvort hann viti til þess. Var heimilt að flytja Fiskistofu á grundvelli þeirra laga sem nú eru í gildi? Og telur hann þetta fyrirkomulag betra, þ.e. að ráðherra einn og sér geti ákveðið það fremur en að koma með málefni stofnana sem ráðherra á hverjum (Forseti hringir.) tíma hyggst flytja eða mundi vilja gera?