144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo ég reyni að útskýra þetta skýrt og skilmerkilega í lokin þá er ekkert að því að menn í þessari umræðu nefni flutning Fiskistofu. Það sem ég var að reyna að benda á er að megininntak frumvarpsins snýst ekki um flutning Fiskistofu. Flutningur Fiskistofu er raunar ekki nefndur í þessum tillögum að breytingum á lögum. Svoleiðis að það að umræðan öll, meira og minna, skuli hafa snúist um Fiskistofu var svolítið sérkennilegt og á það leyfði ég mér að benda.

Svo ég komi aftur inn á spurningu hv. þingmanns um þörfina fyrir að breyta þessum lögum eða árétta það að stofnanir geti starfað annars staðar en í Reykjavík þá hefur verið bent á að eins og sakir standa megi halda því fram að Fiskistofa megi ekki vera í Hafnarfirði, enda verði stofnanir allar að vera í Reykjavík. Það er auðvitað fyrirkomulag sem allir hljóta að geta verið sammála um að gangi ekki upp.