144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

376. mál
[19:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Frumvarp þetta er um breytingu á lögum nr. 16/2000, um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, samið til innleiðingar á þremur gerðum Evrópusambandsins vegna aðildarsamnings Íslands að Schengen-samstarfinu. Auk þess eru með frumvarpinu lagðar til tvær breytingar til að treysta eftirlitshlutverk Persónuverndar vegna skráningar í Schengen-upplýsingakerfið. Breytingarnar sem framangreindar gerðir hafa í för með sér á núgildandi lögum eru til komnar vegna gangsetningar á nýrri kynslóð Schengen-upplýsingakerfisins, nánar tiltekið SIS II. Schengen-upplýsingakerfið er mikilvægt verkfæri í samvinnu íslenskra og evrópskra lögregluliða. Kerfið sem er rafrænt gagnasafn upplýsinga frá 30 Evrópuríkjum til notkunar á öllu Schengen-svæðinu er ætlað til að treysta eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og auka samvinnu lögregluyfirvalda ríkjanna til að koma í veg fyrir og uppræta brotastarfsemi.

Með starfrækslu gagnasafnsins er upplýsingum miðlað á skilvirkan og öruggan hátt milli ríkjanna en það er mikilvægt að unnt sé að fylgja greiðlega þeim reglum sem gilda um frjálsa för fólks á Schengen-svæðinu. Hin nýja kynslóð Schengen-upplýsingakerfisins er sambærileg við það kerfi sem nú er í notkun að því frátöldu að hið nýja kerfi býður upp á uppfærslu upplýsinga til samræmis við tækninýjungar undanfarinna ára. Helstu breytingar nýja kerfisins miðast við eldri upplýsingakerfi sem nú eru í notkun og felast einkum í að fjölga þeim tegundum upplýsinga sem hægt er að skrá inn í Schengen-upplýsingakerfið, þar á meðal heimild til skráningar fingrafara og mynda af eftirlýstum einstaklingum í kerfið, auk skráningar handtökuskipunar í kerfið í þeim tilvikum þar sem slík handtökuskipun hefur verið gefin út af þar til bæru yfirvaldi Schengen-ríkis.

Þá er gert ráð fyrir þeirri nýjung að heimilt verði að tengja skráningar í kerfinu og með því komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga í kerfið.

Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar varðandi eftirlitshlutverk Persónuverndar vegna skráningar í Schengen-upplýsingakerfið. Markmið breytinganna er að treysta eftirlitshlutverk Persónuverndar gagnvart ríkislögreglustjóra, auk þess sem ákvarðanir ríkislögreglustjóra má nú bera undir úrskurð Persónuverndar. Þess ber að geta að SIS II var gangsett í öllum ríkjum Schengen-samstarfsins í apríl 2013 en skráningaraðili kerfisins hér á landi, nánar tiltekið alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, hefur ekki hafið skráningu á fingraförum eða ljósmyndum í kerfið né sett tengingar milli skráninga. Hefst sú framkvæmd ekki fyrr en lög þessi hafa verið samþykkt.

Við gerð frumvarpsins leitaði ráðuneytið sérstaklega eftir umsögnum embættis ríkislögreglustjóra og Persónuverndar, auk þess sem frumvarpið sætti opinberri umsögn á vefsíðu ráðuneytisins í byrjun september á síðasta ári. Það var leitast við að taka fullt tillit til allra þeirra athugasemda sem bárust við frumvarpið.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.