144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að óska okkur öllum til hamingju með daginn því að í dag er 28. janúar. Í dag eru tvö ár síðan við Íslendingar unnum mál fyrir alþjóðlegum dómstóli, EFTA-dómstólnum, og unnum þar með fullnaðarsigur yfir Bretum og Hollendingum og ESB sem stefndi sér inn í Icesave-málið. Ég þakka landsmönnum fyrir kjarkinn að standa með okkur framsóknarmönnum í gegnum tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og þora að fylgja sannfæringu sinni í skugga svæsinna hótana, bölbæna og niðurrifs sem stjórnað var af þáverandi ráðherrum, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hluti þessa máls (Gripið fram í.) skekur nú þjóðina á nýjan leik af miklum þunga. Einkavæðing hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann var fjármálaráðherra á síðasta kjörtímabili var framkvæmd án nokkurrar umræðu á Alþingi og án þess að breytingar hefðu verið gerðar á starfsumhverfi bankanna og annarra fjármálafyrirtækja eða lögum um fjármálafyrirtæki í kjölfar hrunsins breytt. Var sú ákvörðun tekin án nokkurs faglegs mats, verðmats eða útboðs.

Einnig þarf að upplýsa ef og þegar farið verður í rannsókn á síðari einkavæðingu bankanna á hvaða forsendum sú ákvörðun var tekin að taka vald af Fjármálaeftirlitinu varðandi stofnúrskurði byggða á neyðarlögunum og á þeirri ákvörðun að færa valdið til þáverandi fjármálaráðherra sem færði kröfuhöfum bankanna þá á einni nóttu. Hér er ég ekki að ýja að því að lögbrot hafi verið framið heldur eru það hagsmunir allra að þessi mál verði skoðuð og rannsökuð til að fá hið rétta í ljós. Þeirri vinnu kvíði ég ekki sem þingmaður þjóðarinnar. (LRM: Allsherjarsamsæri.)