144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórn Íslands er þverklofin í stærsta hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar. Formenn stjórnarflokkanna tala, annar í austur en hinn í vestur þegar kemur að afnámi hafta og uppgjöri föllnu bankanna. Forsætisráðherra sagði í byrjun mánaðarins að skref yrðu stigin nú þegar í janúar, sem er svo gott sem búinn og engin skref hafa verið stigin. Fjármálaráðherra segir hins vegar að skref verði stigin á fyrri hluta þessa árs. Forsætisráðherra lýsir því yfir að heimilin þurfi að vera skaðlaus af þessum aðgerðum. Fjármálaráðherra lýsti því yfir í morgun að við yrðum að taka stökkið í góðri trú.

Forsætisráðherra lýsir því yfir að skapast verði verulegt svigrúm í samningum við kröfuhafa. Fjármálaráðherra lýsti því yfir hér í gær að málið snerist ekki um að afla tekna heldur að varðveita stöðugleika. Forsætisráðherra segir að þetta sé mikill pólitískur slagur við erlenda kröfuhafa um að ná af þeim 800 milljörðum kr. Fjármálaráðherra lýsir því yfir að þetta sé fyrst og fremst vinna sérfræðinga.

Því hefur verið lýst hér yfir að ekki megi ganga til samninga við kröfuhafana. Svo líða nokkrir mánuðir og þá er sendinefnd af hálfu ríkisstjórnarinnar komin í samningaviðræður við stjórnir slitabúa föllnu bankanna. Gefnar hafa verið út yfirlýsingar um þessa stærstu óvissu í íslenskum efnahagsmálum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um að ríkisstjórnin mundi í þessum tiltekna mánuði gefa út nýja áætlun um afnám hafta. Nú er liðið meira en eitt og hálft ár síðan og ekkert bólar á neinni áætlun. Enn þá er í gildi áætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Við þurfum hér í þinginu, stjórn og stjórnarandstaða, að standa fast saman í þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar, en það er auðvitað alger óhæfa (Forseti hringir.) að formenn stjórnarflokkanna geti ekki einu sinni staðið hvor með öðrum og haft í meginatriðum (Forseti hringir.) svipaðar skoðanir í stærsta hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar.