144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Það var gríðarlega yfirgripsmikið og flókið mál að endurreisa fjármálakerfið á Íslandi eftir að það hafði allt hrunið nánast á einni viku. Það er ótrúlegt að það hafi tekist að endurreisa fjármálakerfið en það var meðal annars hægt á grundvelli neyðarlaganna. Um þessa endurreisn var skrifuð mjög góð skýrsla og gefin út 2011 af fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem þetta er allt saman rakið. Markmiðið var að mynda fjármálakerfi sem mundi verja íslenskar innstæður og það þurfti auðvitað að færa úr föllnu bönkunum eignir á móti þessum skuldbindingum. Það fór fram umfangsmikið mat á þessum eignum unnið af erlendu ráðgjafarfyrirtæki. Þetta er allt saman rakið. Þessar eignir höfðu líklega í kjölfar fjármálakerfisins fallið í verði um 50%.

Ég geld varhuga við þeim sjónarmiðum sem gætir mjög í umræðunni að þetta ógnarmikla hrun fjármálakerfisins hafi verið og sé á einhvern hátt óinnleystur lottóvinningur fyrir Íslendinga, að Íslendingar geti með því að vera miklir spaðar vaðið inn í þetta ferli og grætt mörg hundruð milljarða. (Gripið fram í: Útrásarvíkingar.) Það er svolítið sú hugsun, útrásarvíkingahugsunin. Mér finnst hennar stundum gæta hjá mörgum þingmönnum og mér finnst hún ekki rétt. Ég held að skynsamlega hafi verið staðið að endurreisn fjármálakerfisins sem sést best á því að það tókst að mestu leyti að endurreisa það. (Gripið fram í: Skítt með heimilin.) Það er svolítið villandi að tala um að bankarnir hafi verið einkavæddir á þessum tímapunkti. Þeir voru ekki í eigu ríkisins. Þetta snerist um að endurreisa þrjár bankastofnanir á rústum þeirra sem hrundu sem voru ekki í eigu ríkisins. (Gripið fram í.) Ef ríkið hefði viljað endurreisa þrjá ríkisbanka á þessum grunni hefði (Forseti hringir.) ríkið þurft að leggja þeim öllum til eigið fé, (Forseti hringir.) en það var ákveðið að leggja bara (Forseti hringir.) einum til eigið fé en fara aðrar leiðir með aðra.