144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Forsætisráðherra og samflokksmenn hans hér í þessum sal hafa undanfarið, og undanfarin ár líka, talað eins og hér hafi ríkið einhvern tímann átt Íslandsbanka og Arion banka, þ.e. gamla Kaupþing. Hvenær var það? Getur einhver af þessum ágætu þingmönnum sem hér hafa verið að tala í dag sagt mér nákvæmlega hvenær það var? Hvenær þjóðnýtti íslenska ríkið þessa banka og kröfur í þá? Hvenær? Hvenær var ríkið með eignarhald á þessum fjármálastofnunum í sínum höndum til þess að geta einkavætt þær eins og formaður fjárlaganefndar sagði hér áðan? (Gripið fram í.) Hvenær gerðist það, virðulegi forseti? Ég held að Framsóknarflokkurinn og forsætisráðherra þurfi að fara að sýna okkur það og kannski skrifa litla skýrslu um það hvenær nákvæmlega eignarhald á þessum fjármálastofnunum var í höndum ríkisins. Þá kannski komumst við eitthvað áfram í þessari umræðu. Þetta er algjör þvæla sem hér er haldið fram, það er bara svo einfalt. Menn tala hér eins og ríkið hafi einhvern tímann átt þetta. Það var bara aldrei þannig.

Virðulegi forseti. Ég held að þegar menn stíga fram með þessum hætti verði þeir að skýra þetta litla grundvallaratriði sem er forsenda málflutnings þeirra. Ef menn geta ekki sýnt okkur fram á það hvenær þetta átti sér stað er málflutningur þeirra fallinn með öllu. Þess vegna kannski er það ekki gert.

Að lokum vil ég segja að hér er í bið samþykkt Alþingis um að rannsókn fari fram á einkavæðingu bankanna frá því í upphafi aldarinnar. Ég held að það sé lag að menn fari að framfylgja þeirri samþykkt Alþingis og hefji þá rannsókn áður en menn halda áfram að rannsaka hvað gerðist innan bankakerfisins síðar á (Forseti hringir.) öldinni.