144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef stundum komið hingað upp undir þessum dagskrárlið til að kvarta undan stjórnarliðum. Það hefur stundum verið ástæða til að gera það. En núna er ég hingað komin til að hrósa einum stjórnarliða. Hæstv. innanríkisráðherra Ólöf Nordal kvaddi sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta í gær til að leiðrétta upplýsingar sem hún gaf í munnlegu svari við fyrirspurn minni um framkvæmdir og aðkomu ríkisins að framkvæmdum við Helguvíkurhöfn. Öllum geta orðið á mistök og alla getur misminnt í hita leiksins en það stíga ekki allir svo fljótt fram og leiðrétta orð sín svo skýrt sem hæstv. innanríkisráðherra gerði hér í gær.

Ég er afar þakklát fyrir það. Það skiptir miklu máli fyrir þetta mál og ég veit að fleiri sem til málsins þekkja eru þakklátir fyrir að hæstv. innanríkisráðherra hafi stigið svo skýrt fram.

Mér finnst hún góð fyrirmynd hvað þetta varðar og ég segi: Svona eiga sýslumenn að vera.