144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Já, það er full ástæða til að taka undir hamingjuóskir til Íslendinga með þennan bjarta og fallega dag sem markar tveggja ára afmæli (Gripið fram í.) fullnaðarsigurs í Icesave-málinu. Ég veit ekki af hverju menn eru svona „sart“ yfir þessu, það er eins og hér sé einhver undirliggjandi óánægja með þetta sem ég trúi ekki að sé til.

Ég ætlaði reyndar ekki að tala um þetta mál í dag, ég ætlaði að róa á svipuð mið og hv. þm. Björt Ólafsdóttir. Ég verð að segja að ég er mjög sleginn yfir því sem kemur fram í viðtali við aðstoðarlögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, um að Hæstiréttur hafi fellt úr gildi þrjú nálgunarbönn sem lögreglan í Reykjavík hafði sett. Ég ætla ekki að deila við dómarann, ég ætla ekki að deila við Hæstarétt, en ef það er þannig að þau lög eða þær lagabreytingar sem voru gerðar á Alþingi mjög nýlega, sem varða flutning ofbeldismanna af heimilum og nálgunarbann á þá, ef það er pláss fyrir mat á aðstæðum í þeim lögum sem koma í veg fyrir að nálgunarbann virki verðum við alþingismenn einfaldlega að skýra þessi lög. Það er ekki pláss fyrir að það sé matsatriði hverju sinni þegar meintir ofbeldismenn, og ekki aðeins meintir heldur menn sem hafa orðið berir að ofbeldi á heimili sínu, eru færðir þaðan og sett á þá nálgunarbann, að ef þeir sem eftir sitja á heimilunum eru ekki öruggir og geta ekki verið öruggir um sitt skinn er það skylda okkar að grípa þegar í stað í taumana og lagfæra þá lagabreytingu sem við gerðum á sínum tíma, til að koma í veg fyrir að þessir atburðir endurtaki sig. Ég vil að lokum vitna í orð aðstoðarlögreglustjórans, með leyfi hæstv. forseta, þar sem hún segir:

„Við vonum auðvitað að þetta verði ekki til þess að brotaþolar hætti að leita til okkar af því þeir haldi að þetta virki ekki.“

Við þurfum einfaldlega að veita þessu fólki (Forseti hringir.) þann trúnað og það traust að það haldi áfram að bera mál sín upp við lögregluna. (Gripið fram í.)