144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[15:43]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björtu Ólafsdóttur fyrir að hefja þessa sérstöku umræðu og þær spurningar sem hún beinir til mín. Hv. þingmaður beindi sérstaklega til mín fjórum spurningum varðandi notendastýrða persónulega aðstoð, NPA. Ég vil í fyrsta lagi vísa til þess að fyrir áramót svaraði ég skriflega fyrirspurn frá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar þar sem kemur mjög skýrt fram að í ljósi þess að enn er ekki komin nægileg reynsla af framkvæmd samstarfsverkefnisins um notendastýrða persónulega aðstoð hafi ég að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga ákveðið að framlengja verkefnið um tvö ár. Ég sagðist því mundu á næstu vikum leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, í samræmi við það.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að boðið verði upp á notendastýrða persónulega aðstoð til reynslu til ársloka 2016 eða þar til endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks verði lokið. Í frumvarpi til endurskoðunar laganna verða meðal annars lögð til ákvæði til að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð sem þjónustuúrræði fyrir fatlað fólk. Þetta má finna í gögnum þingsins.

Á dagskrá þingsins í dag er einmitt það frumvarp sem þarna er vitnað til. Þar kemur meðal annars fram að það hefur tekið lengri tíma að koma af stað tilraunaverkefninu en við kannski áætluðum í upphafi. Sem dæmi má nefna að stærsta sveitarfélagið í landinu gerði sína fyrstu samninga í byrjun árs 2013 eins og kemur fram í greinargerð. Í frumvarpinu eru líka ákvæði sem snúa að möguleika að því að rýmka vinnutíma fólks sem hefur verið að vinna í notendastýrðri persónulegri aðstoð og það er í samræmi við ábendingar sem hafa komið fram við vinnslu málsins. Í svarinu kemur líka fram að vinna við faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu er hafin en í ljósi þess að það er ákveðið að framlengja samstarfsverkefnið um tvö ár þykir hins vegar rétt að láta hið faglega og fjárhagslega mat ná yfir lengri tíma en upphaflega var stefnt að. Þar með væri hægt að fá dýpri og greinanlegri upplýsingar um hvernig best væri hægt að haga notendastýrðri persónulegri aðstoð til framtíðar. Matið mundi eiga sér stað á árunum 2014 og 2015 og verða að fullu lokið 2016. Þar kemur líka fram að verkefnisstjórn um NPA hefur haldið 15 formlega fundi frá 19. mars 2013 þannig að ég tel að það sé búið að vinna mjög vel að þessu. Hins vegar hafa ýmis atriði komið upp og það er til dæmis hægt að benda á málaferli sem hafa verið í gangi gagnvart Reykjavíkurborg varðandi rammann utan um notendastýrða persónulega aðstoð.

Ég vil líka benda hér á að ég hef verið að kynna mér aðeins hvernig staðið hefur verið að innleiðingunni annars staðar á Norðurlöndunum. Eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins byrjuðu til dæmis í Noregi tilraunir með NPA árið 1990 og tíu árum seinna var slík þjónusta lögfest sem þjónustuúrræði í landinu. Það sýnir sig að hin löndin hafa töluvert lengri reynslu og það hefur tekið tíma að þróa þetta og tryggja að þetta sé með sem bestum hætti.

Hins vegar er alveg ljóst að þeir sem hafa fengið NPA eru mjög ánægðir með þá þjónustu og þetta er að mínu mati gott úrræði. Ég tel mjög mikilvægt að þetta komi fram í nýrri löggjöf, eins og ég hef nefnt hér. Sama nefndin er að skoða heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks og er með félagsþjónustulögin og eitt af því sem menn hafa verið að skoða er hvort það sé rétt að sameina þetta í eina löggjöf. Það eru líka mjög stór atriði sem við erum að fara yfir og koma að því mikilvæga hugtaki sem hv. þingmaður fór hér í gegnum, sjálfstæðu lífi. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess. Það er nálgun velferðarráðuneytisins og nálgun mín varðandi alla þá þætti sem snúa að þessum málaflokki. Þegar ég hef átt fundi með sveitarfélögunum um félagsþjónustuna og málefni fatlaðs fólks hafa húsnæðismálin komið upp aftur og aftur til að stuðla einmitt að því að fólk geti átt sjálfstætt líf. Það var skilið kannski töluvert eftir þannig að við eigum eftir að ná betur utan um það í samstarfi við sveitarfélögin. Ég hef lagt mjög mikla áherslu á tækifæri fólks með fötlun til að komast inn á vinnumarkaðinn (Forseti hringir.) og tryggja virkni. Þetta eru þættir sem við höfum virkilega unnið mikið að.

Ég vil að lokum nefna, eins og ég hef nefnt í öllum málum (Forseti hringir.) sem snúa að málefnum fatlaðs fólks, mikilvægi nýsköpunar og velferðartækni til að bæta þjónustuna við þennan hóp.