144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[15:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu hér í dag og ég hvet hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra til að halda áfram að vinna í þeim anda sem gert var á síðasta kjörtímabili. Á ríkisstjórnartíma Jóhönnu Sigurðardóttur sem hófst rétt að loknu hruni efnahagskerfisins voru stigin stór og mikilvæg skref í málefnum fatlaðs fólks. Það var samþykkt breyting á lögum um málefni fatlaðs fólks þannig að þau voru flutt yfir til sveitarfélaganna. Þingið ákvað að ráðherra skyldi búa til framkvæmdaáætlun sem kom fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu og var hún samþykkt, framkvæmdaáætlun út árið 2014. Við festum í lög réttindagæslu fyrir fatlað fólk og á grundvelli þingsályktunartillögu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar o.fl. var hér samþykkt þingsályktunartillaga um NPA sem varð síðan að því bráðabirgðaákvæði í lögum um þjónustu við fatlað fólk þar sem kveðið er á um að þessa tegund þjónustu skuli lögfesta fyrir árslok 2014. Það er einmitt það sem hv. þingmaður spyr hér um í dag. Ég hvet ráðherra til að leggja allt af mörkum til að þetta geti orðið að veruleika í samræmi við þá áætlun sem hún leggur fram núna. Ég vil jafnframt spyrja hana hvort nægilegt fjármagn sé tryggt inn í verkefnið til 2016 og hvort það eigi að fjölga samningum á því tímabili því að það skiptir líka mjög miklu máli. Ég vil segja hér að það var mjög góð samstaða um þessi málefni á síðasta kjörtímabili, minni hlutinn lagði mikið til (Forseti hringir.) og mikið af mörkum. Ég hvet ráðherra til að vinna áfram í þeim anda.