144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[16:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir að hefja umræðuna um þetta mikilvæga málefni sem notendastýrð persónuleg aðstoð er. Hv. málshefjandi, hæstv. ráðherra og fleiri hv. þingmenn hafa gert mjög vel grein fyrir mikilvægi mannréttinda og hversu mikilvægt það er að tryggja sjálfstæði og frelsi einstaklingsins sem eru mikilvægustu þættirnir í því úrræði sem við ræðum. Hæstv. ráðherra lagði jafnframt áherslu á það að framlengja þetta þróunarverkefni. Eins og komið hefur fram í umræðunni náðist ekki að klára að lögfesta það hér í árslok 2014, en það mikilvægasta sem þessi umræða leiðir kannski fram er að yfirfærslan takist vel á öllum sviðum og að þetta mikilvæga réttindaúrræði sem NPA sannarlega er verði fest í sessi samhliða öðrum úrræðum.

Til að við náum vel utan um það verkefni sem yfirfærslan er og þetta verkefni er skynsamlegt að fara þá leið sem ráðherra hefur valið, að framlengja verkefnið sem var til bráðabirgða og í lögum um málefni fatlaðs fólks, fara til ársins 2016 og klára það. Þannig má tryggja lagalegan grundvöll og byggja á vel ígrunduðu, fjárhagslegu og faglegu mati á verkefninu þannig að því verði tryggður sá fjárhagslegi og faglegi rammi sem til þarf til þess að festa þetta mikilvæga úrræði í lög.