144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[16:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir að minna á að það var um þessi áramót sem einhverjir nýir hlutir áttu að fara að gerast í því sem lýtur að notendastýrðri persónulegri aðstoð. Ég þakka ráðherranum svörin svo langt sem þau ná því að þau ná út af fyrir sig ekki lengra en til þess að það eigi að framlengja það tilraunaverkefni sem staðið hefur í tvö ár frá því að fyrstu samningarnir voru gerðir í Reykjavíkurborg. Það kunna að vera efnisrök fyrir því að verkefnið taki lengri tíma. Þegar litið er til þeirra áhrifa sem þetta hefur fyrir þá sem þjónustunnar njóta, og ráðherra fór svo ágætlega yfir þá miklu ánægju sem er hjá notendunum með þann þjónustubata sem fylgir því að fá notendastýrða persónulega aðstoð, er auðvitað miður ef ekkert á að gerast í málinu allt þetta kjörtímabil. Eftir tvö ár er kjörtímabilið búið. Það vita allir hvað er erfitt í málinu, það erfiða í málinu er hvorki að halda nefndarfundi né að framlengja tilraunaverkefni. Það erfiða í málinu er að ná því fjármagni og þeim pólitíska stuðningi sem þarf til að veita þá þjónustu sem er svo miklu betri en sú þjónusta sem fólk er með í dag.

Ég hvet ráðherrann til að endurskoða það að ætla að fresta því verkefni fram í lok kjörtímabilsins, þegar fjárveitingavaldið er í raun og veru úr höndum þessarar ríkisstjórnar, og reyna að ná fram einhverjum áfanga í sinni ráðherratíð í málinu öðrum en bara að framlengja þetta afmarkaða verkefni sem verið hefur.