144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[16:07]
Horfa

Áslaug María Friðriksdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar líka til að fagna því að þetta mál sé á dagskrá, sérstaklega af því að þetta er jómfrúrræða mín úr þessum ræðustóli, því að málið er mér bæði afar kært og mjög skylt. Bæði hef ég setið í verkefnisstjórninni um NPA og verið sérstakur talsmaður þess að við reyndum að skapa vettvang fyrir sveigjanlegri þjónustu til að fara út úr þessu stofnanamiðaða umhverfi yfir í sveigjanleikann. Það er það sem þarf og það er það sem NPA snýst um. Þetta er líklega eitt af mikilvægustu verkefnunum sem við erum að fjalla um í dag.

Ég get sagt ykkur reynslusögur af því úr verkefnisstjórninni að það er algjörlega ljóst að með því að hefja þetta verkefni og sjá hvað gerist í því finnum við hvar stofnanaþjónustan mætir sveigjanleikanum. Við höfum séð fullt af dæmum um erfiðleika vegna alls konar mála sem þarf að skoða betur og því þurfum við að sjálfsögðu að fara betur yfir það og skoða hvort við þurfum að breyta rammanum eitthvað, hvernig fólki líður, hvernig því gengur að reka sig í rekstrarforminu. Ég veit ekki hvort allir vita það, en þetta er gjörólíkt því sem menn þekkja hér og hafa þekkt í gegnum tíðina. Þetta snýst um það að sá sem fær þjónustu þarf ekki að flytja sig á ákveðna stofnun heldur fær þjónustuna heim á sínum forsendum og ræður algjörlega hvað gerist.

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að verkefnið verði framlengt og að það liggi hér fyrir. Auðvitað er valfrelsi og aukið sjálfstæði til þeirra sem þurfa aðstoð okkar hjartans mál. Ég held að ég tali þá fyrir okkur öll sem hér sitjum.